Viðskipti innlent

Ástæða til að hafa áhyggjur af gengislánum á ný

Þorbjörn Þórðarosn skrifar
Dósent í hagfræði segir talsverða áhættu fylgja því að opna á gengislán fyrir þá sem standast greiðslumat en segir erfitt að viðhalda fortakslausu banni á slík lán vegna sjónarmiða um samningsfrelsi. Hann segir að hægt sé að halda áhættunni í skefjum ef Seðlabankinn og önnur stjórnvöld grípa inn í.

Fjármála- og efnahagsráðherra freistar þess nú í þiðja sinn að leggja fram frumvarp um gengistryggð lán til þeirra sem hafa tekjur í krónum en slík lán voru bönnuð eftir hrun. Efnislega sama frumvarp var tvívegis lagt fram í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar og stöðvað í bæði skiptin af efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis undir forystu Frosta Sigurjónssonar. Í síðara skipti klofnaði nefndin og framsóknarmenn mynduðu meirihluta með stjórnarandstöðuþingmönnum í nefndinni. Frosti hafði áhyggjur af áhrifum þessa frumvarps á gengis- og fjármálastöðugleika og vildi fortakslaust bann við þessum lánum. Lilja Alfreðsdóttir flokkssystir Frosta gagnrýndi nýja frumvarpið harðlega í fréttum okkar í gær.

„Við erum að hugsa um heimilin í landinu. Við viljum ekki að þau beri áhættuna, heildin, af áhættu sem fáir einstaklingar eru að taka. Svo má ekki gleyma því að þeir sem taka þessa áhættu, það er allt í lagi að þeir geri það sjálfir en þeir gera það líka á kostnað heildarinnar. Ef þeir loka stöðum á mjög skömmum tíma þá veikist gengi krónunnar mjög hratt. Flestöll lán eru verðtryggð þannig að þetta bitnar á öllum heimilum í landinu,“ sagði Lilja.  

Fréttastofan leitaði til Ásgeirs Jónssonar dósents í hagfræði við HÍ.  

Er áhætta fólgin í því fyrir hagkerfið að opna á þetta á ný? 

„Já, já það getur verið. Ef það myndast stór staða eins og var hérna áður, eins og fyrir hrun þegar sextíu prósent fjármögnunar fyrirtækja var í erlendri mynt eða gengisbundin. Það er hins vegar erfitt að banna svona hluti því það ríkir samningsfrelsi. Annað, í svona litlu opnu hagkerfi þar sem mikil fylgni er á milli gengisins og verðbólgu, þá er ekkert svakalega mikill munur á því að vera með gengislán og verðtryggð lán,“ segir Ásgeir. 

Líka ágreiningur um sanngirnisrökin

Ef að eitt þúsund heimili á Seltjarnarnesi og Garðabæ myndu taka svona lán og það myndi byggjast upp 50 milljarða króna staða í svona lánasamningum í hagkerfinu væri það ekki hættulegt fyrir alla hina sem eru bara með sína einföldu krónusamninga? Um þetta er deilt. 

„Í heildarsamhengi hlutanna þá verðum við alltaf að fylgjast með þessari stöðu í hagkerfinu. Þetta verður hluti af því að fylgjast með fjármálastöðugleika, að fylgjast með því hversu há erlend lán eru og hvernig þau hafa þróast,“ segir Ásgeir. Hann telur fullnægjandi að Seðlabankinn fylgist með á hliðarlínunni.

Seðlabankinn fær valdheimildir og stjórntæki til þess að takmarka lánveitingar af þessu tagi til að verja fjármálastöðugleika en í frumvarpinu segir: „Seðlabanka Íslands er heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu.“

Vandi fylgir hins vegar vegferð hverri og dæmin sanna að eftirlitsaðilar bregðast stundum allt of seint við. Besta dæmið er íslenskt hagkerfi fyrir 2008. 

Málið snýst ekki bara um þetta því einnig er deilt um sanngirnisrök og er sú deila af öðrum meiði og meira pólitísk. Krafa frumvarpsins um greiðslu- og lánshæfismat mun leiða til þess að tekju- og eignaháir einstaklingar munu geta tekið þessi lán en ekki meginþorri almennings. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa einnig gert athugasemdir við frumvarpið á þessari forsendu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×