Erlent

Ósannindum þjóðarleiðtoga um veiruna eytt af samfélagsmiðlum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro Brasilíuforseti hefur ítrekað grafið undan tilmælum heilbrigðisyfirvalda sem eiga að hefta útbreiðslu veirunnar. Myndband sem hann birti á Facebook og Instagram þar sem hann talaði um að lyf virkaði fullkomlega gegn veirunni var fjarlægt.
Bolsonaro Brasilíuforseti hefur ítrekað grafið undan tilmælum heilbrigðisyfirvalda sem eiga að hefta útbreiðslu veirunnar. Myndband sem hann birti á Facebook og Instagram þar sem hann talaði um að lyf virkaði fullkomlega gegn veirunni var fjarlægt. Vísir/EPA

Samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter hafa tekið upp á því að eyða færslum þjóðarleiðtoga á þeim forsendum að þeir dreifi rangfærslum um kórónuveirufaraldurinn. Fyrirtækin hafa fram að þessu verið afar hikandi við að hafa afskipti af færslum þjóðarleiðtoga jafnvel þegar þeir fara með rakin ósannindi.

Myndbandi Jairs Bolsonaro, forseta Brasilíu, um að malaríulyfið hydroxychloroquine virki algerlega sem meðferð við veirunni var eytt af Facebook og Twitter fjarlægði tíst Nicolás Maduro, forseta Venesúela, um heimilisráð fyrir henni.

Bæði fyrirtæki eru undir þrýstingi að grisja út ósannindi um kórónuveiruheimsfaraldurinn. Twitter uppfærði reglur sínar um rangfærslur sem tengjast heilbrigðismálum og Facebook segist ætla að fjarlægja færslur sem geta valdið fólki líkamlegum skaða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í þann flokk setti Facebook myndband Bolsonaro Brasilíuforseta. Í því sást forsetinn ræða við fólk á förnum vegi í Taguatinga. Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum og hvatt landsmenn til þess að hunsa fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda sem eiga að hefta útbreiðslu veirunnar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að engin lyfjameðferð hafi sannað gildi sitt gegn kórónuveirunni þó að ákveðnir lyfjakokteilar virðist geta hjálpað til gegn henni. Hydroxychloroquine og tengda efnið chloroquine séu tilraunalyf með ósannaða virkni gegn veirunni. Engu að síður hefur bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) samþykkt að nota lyfin í neyðarúrræðum fyrir sjúklinga með COVID-19 á sjúkrahúsum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað lyfið í hástert, áður en FDA samþykkti það til notkunar. Tísti persónulegs lögmanns hans, Rudys Guiliani, um að lyfið væri „100% árangursríkt“ gegn veirunni var eytt á dögunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×