Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn áfram stærstur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 28 prósent fylgi og er þannig áfram stærsti flokkur landsins, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Litlar breytingar mælast á fylgi flokka milli mánaða og ná ekki að vera tölfræðilega marktækar.

Ríflega 24 prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn, 12 prósent Pírata og tæplega 11 prósent Framsóknarflokkinn. Þá mælist Samfylkingin með 8 prósenta fylgi, Björt framtíð með rösklega 6 prósent og Viðreisn með ríflega 5 prósent.

Flokkur fólksins mælist með rúmlega 2 prósent og tæplega 3 prósent nefna aðra flokka.

Tæplega 8 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og nær 8 prósent svarenda segjast myndu skila auðu ef kosið yrði til Alþingis í dag. Liðlega 41 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja ríkisstjórnina, sem er um þremur prósentustigum minna en í síðustu könnun.

Könnunin var gerð dagana 1. til 28. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 5.557 og þátttökuhlutfall var 56,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×