Erlent

Borgaryfirvöld í Beijing taka á dansandi öldungum

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldri borgarar sem gómaðir eru við að dansa á opinberum stöðum í Kína mega nú eiga von á að vera sektaðir fyrir að raska almannaró. Dans á götum úti er vinsæl iðja á meðal kínverskra öldunga. Ekki eru hins vegar allir eins hrifnir og hafa önugir nágrannar sigað hundum á gamla fólkið og jafnvel kastað saur í það.

Líkamsrækt og skemmtun fyrir eldra fólk er af skornum skammti í Kína en Kínverjar eldast nú þjóða mest. Áætlað er að um 360 milljónir Kínverja verði eldri en sextugir árið 2030.

Bandaríska fréttastofan CNN segir frá því að margir eldri borgarar, sérstaklega konur, hafi af þessum sökum tekið upp á því að koma saman á torgum og almenningsgörðum til að dansa við háværa tónlist. Þessi iðja hefur notið gífurlegra og vaxandi vinsælda í Kína.

Ríkisfjölmiðillinn Xinhua áætlar að allt að hundrað milljón Kínverjar stundi samhæfðan dans á opinberum stöðum.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá umfjöllun bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4 um ömmurnar dansandi í Kína frá árinu 2014.





Til að bregðast við óánægju þeirra sem láta dansinn og tónlistina fara í taugarnar á sér hafa stjórnvöld reynt að hafa hemil á dönsurunum öldnu með því að leggja þeim til samþykktar dansæfingar og popplög. Þá eru dæmi um að hljóðstyrksmælar hafi verið settir upp í almenningsgörðum.

Í höfuðborginni Beijing tóku nýjar reglur gildi um mánaðamótin sem kveða á um að sekta megi dansarana og beita þá öðrum viðurlögum ef þeir eru taldir raska almannaró.

Ma Lijun er ein dansaranna og hefur hún farið á fætur til að dansa fyrir framan verslunarmiðstöð í Beijing klukkan átta á hverjum morgni undanfarin fimm ár.

„Þetta er eins og stór fjölskylda hérna. Mér finnst ég vera frjáls,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×