Innlent

FA gagnrýnir rafrettufrumvarp

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
„Þetta plagg heilbrigðisráðherra virðist illa undirbúið og lítið hugsað. Það er ástæða til að vinna þetta mál mun betur og draga úr þeim inngripum í athafna- og atvinnufrelsi sem felast í frumvarpsdrögunum,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í grein sem birtist á vef FA í gær um svokallað rafrettufrumvarp.

Þar kemur fram að FA hafi sent velferðarráðuneytinu umsögn um frumvarpið en það snýst meðal annars um að fella rafrettur undir sömu lög um sölu og markaðssetningu og gilda um tóbak. Þá verði bannað að nota rafrettur á opinberum stöðum líkt og tóbak, aldurstakmark sett á viðskipti, flöskustærðir vökva til áfyllingar verði takmarkaðar sem og stærðir rafrettutanka.

FA gagnrýnir að engin greinargerð fylgi frumvarpsdrögum og því sé ekki hægt að sjá hvaða greinar frumvarps eigi rætur að rekja til tilskipunar frá Evrópusambandinu. Þá sé af sömu ástæðu ekki hægt að greina mat ráðuneytisins á þeim rannsóknum sem liggja fyrir um skaðsemi eða skaðleysi rafretta.

„Í þriðja lagi gagnrýnir FA að án rökstuðnings skuli vera lagt til að sömu takmarkanir verði á notkun rafsígaretta og reyktóbaks og óheimilt að nota þær á tilteknum stöðum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×