Innlent

Kolsvört loftslagsskýrsla frá ráðherra

Svavar Hávarðsson skrifar
Án meiriháttar inngrips stendur Ísland hvorki við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum samkvæmt Kyoto-bókuninni frá árinu 1997 né undir skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsáttmálanum nýja. Losun á hvern Íslending er þegar nærri þrefalt meiri en gerist á heimsvísu og rétt um helmingi meiri en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins (ESB). Þegar allt er lagt að jöfnu er Ísland ekki í fararbroddi í loftslagsmálum heldur á hið gagnstæða við.

Í besta falli svört skýrsla

Skýrsla Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra um stöðu og stefnu Íslands í loftslagsmálum var lögð fram á Alþingi á mánudag. Hún verður í besta falli kölluð svört, og kemur hún fast á eftir greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á möguleikum Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

Í skýrslu Bjartar, sem er berorð og þar sem í engu er reynt að tala niður stöðuna, segir einfaldlega frá því að losun hafi aukist um 26% á Íslandi frá 1990 til 2015. Á sama tíma hefur losun dregist saman um 24% samtals í 28 ríkjum ESB. Í skýrslu Hagfræðistofnunar bendir spá til þess að losun geti aukist um 53 til 99% hérlendis til 2030 en ívið minna, eða 33-79%, ef tillit er tekið til kolefnisbindingar með landgræðslu og skógrækt. Líklega eru fá eða engin dæmi um jafn mikla fyrirsjáanlega aukningu í losun til 2030 hjá öðrum þróuðum ríkjum. Ímynd hreinleika, sem ítrekað er haldið á lofti, sé því brothætt, í besta falli.

Björt Ólafsdóttir
„Það er ekki endalaust hægt að vísa til hitaveituvæðingar fortíðarinnar sem dæmi um framsækni Íslands í loftslagsmálum. Við þurfum að grípa öll loftslagsvænu tækifærin sem blasa við og setja aukinn kraft í verkefni sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Rafvæðing samgangna er dæmi um slíkt verkefni; þar þarf að ganga til verka með sama hugarfari og í jarðhitavæðingunni,“ segir á einum stað og fellur vel að varnaðarorðum sérfræðinga sem í viðtölum við Fréttablaðið á dögunum sögðu nákvæmlega það sama.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice, sagði stjórnvöld hafa verið óhóflega værukær. Mikið hafi verið gert af því að tala upp stöðu Íslands en afrek fortíðarinnar nýtt í því samhengi. Þar sé til dæmis vinsælt að tala um hitaveitubyltinguna þegar nærtækara væri að ræða verkefnin sem liggja vel skilgreind á borðinu – og hafa gert um langt árabil.

Skuldbindingar

Sá hluti skýrslunnar sem tekur til fortíðarinnar og stöðunnar í dag er í raun allur á sama veg. Látum Parísarsamkomulagið eiga sig í bili, því nýjustu losunartölur fyrir Ísland benda til að Íslendingar muni eiga erfitt með að standa við skuldbindingar sínar innan ramma Kyoto-bókunarinnar til 2020 – hvað þá mun metnaðarfyllri markmið sem undirrituð voru í París í desember 2015. Aðgerðaáætlun frá 2010 hefur miðað að því að standa við Kyoto-bókunina og fyrstu árin eftir að áætlunin gekk í gildi dróst losun saman nokkurn veginn í takt við væntingar. Nýjar losunartölur fyrir 2015 benda hins vegar til að losun standi í stað eða leiti upp á við á ný, segir í skýrslu Bjartar. Þar kemur meðal annars til að áhrifa samdráttar eftir bankahrunið 2008 gætir ekki lengur og mikill vöxtur er í sumum greinum; ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

„Uppgjör tímabilsins fer ekki endanlega fram fyrr en eftir 2020 og ef losun er umfram skuldbindingar getur Ísland keypt heimildir í slíku uppgjöri. Augljóslega er þó betra að geta staðið við skuldbindingar og á það verður stefnt,“ segir í skýrslunni og hér má gefa sér að dregið sé úr. Varla vilja íslensk stjórnvöld ganga þau svipugöng að kaupa upp heimildir til að standa undir skuldbindingum sínum. Sérstaklega þar sem af því hefur verið gumað um langt árabil að Ísland hafi alla burði til að verða forysturíki í loftslagsmálum, nokkuð sem er endurtekið í skýrslunni.

Árni Finnsson, formaður Náttúru­verndarsamtaka Íslands, segir að skýrsla ráðherra einkennist af mun meira raunsæi en við eigum að venjast hjá ráðamönnum. Í fyrsta skipti í langan tíma sé sett fram markmið sem hönd er á festandi. Ísland ætlar að draga úr losun um allt að 40% í samvinnu við önnur Evrópuríki og bent á að viðmið ESB geri ráð fyrir samdrætti á bilinu 35 til 40%. Er þá ekki átt við stóriðju heldur þá losun sem fellur undir íslenska lögsögu.

„Skýrslan vanmetur ekki þörfina fyrir gríðarlegt átak í loftslagsmálum og það er gott. Á hinn bóginn er enn eftir að sjá hvort aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni fylgi umhverfisráðherra í þessu mikilvæga máli. Til dæmis eru þau markmið sem kynnt eru í þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra um orkuskipti í samgöngum afar óljós. Ráðherrarnir tala ekki sama tungumál og það verður að laga,“ segir Árni.

Mengandi stóriðja

Í loftslagsumræðunni hefur stóriðjan oft verið tekin út fyrir sviga. Það kemur til af því að losun stóriðjunnar er ekki á ábyrgð stjórnvalda og reiknast ekki inn í aðgerðir til að ná loftslagsmarkmiðunum. Langmest af aukningu losunar fram til þessa og í fyrirliggjandi spám er þó frá stóriðju, en fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS) og losun þeirra er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra. Það skal hins vegar tekið fram að þótt stjórnvöld þurfi ekki að bera beina ábyrgð á stóraukinni losun frá stóriðju stefnir engu að síður í að Ísland standi að óbreyttu hvorki við skuldbindingar sínar innan Kyoto-bókunarinnar til 2020 né Parísarsamningsins til 2030.

Eðli skýrslunnar er hins vegar stóra myndin og þar er vísað til spár Hagfræðistofnunar sem sýnir mikla aukningu í losun frá mengandi stóriðju hérlendis á komandi árum.

„Þau rök eru gjarnan sett fram að út frá loftslagssjónarmiðum sé gott að fá mengandi stóriðju hingað til lands til að nýta endurnýjanlega orku. Spyrja má á móti hvort rétt sé að hvetja til slíks sérstaklega með ívilnunum, ekki síst þegar hægt er að nota orkuna á annan hátt, s.s. til gagnavera og orkuskipta. Nú fara hátt í 80% af raforku á Íslandi til stóriðju og það hlutfall verður enn hærra á næstu árum, ef áform um frekari uppbyggingu stóriðjunnar á grunni fyrri ákvarðana verða að veruleika,“ segir þar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×