Viðskipti innlent

Nærri tveir milljarðar í arð hjá Granda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Úr vinnslu HB Granda.
Úr vinnslu HB Granda. vísir/stefán
Ein króna á hvern hlut í HB Granda verður greidd í arð vegna ársins 2016. Samtals nemur fjárhæðin 1,8 milljörðum króna. Arðurinn verður greiddur þann 31. maí næstkomandi. Þetta var samþykkt á aðalfundi HB Granda í gær.

Þau Anna G. Sverrisdóttir, Halldór Teitsson, Hanna Ásgeirsdóttir, Kristján Loftsson og Rannveig Rist voru kjörin í stjórn félagsins. Þá var einnig samþykkt að þóknun til stjórnarmanna vegna næsta árs verði 264.000 krónur á mánuði og að formaður fái tvöfaldan hlut.

Undanfarið hefur HB Grandi verið mikið í umræðunni vegna áforma um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi. Eru þau áform tilkomin þar sem útlit er fyrir tap af vinnslu botnfisks.

Þá greindi Fréttablaðið frá því á fimmtudag að HB Grandi hefði ákveðið að ganga til samninga við spænska skipasmíðamiðstöð um smíði frystitogara. Samningsupphæðin liggur nærri fimm milljörðum króna en togarinn er hannaður af Rolls Royce í Noregi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×