Erlent

Óttast að gulusótt verði heimsfaraldur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alþjóðlegu góðgerðarsamtökin Save the Children vara við því að gulusótt gæti orðið heimsfaraldur.

Samtökin segja nýjasta faraldur gulusóttar hafa breiðst hratt um Austur-Kongó og Angóla. Faraldurinn gæti brátt breiðst út til Ameríku, Asíu og Evrópu sé hann ekki stöðvaður. Á þessu ári hafa 400 manns látist úr gulusótt í löndunum tveimur.

Save the Children hóf því í gær verkefni í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti Austur-Kongó þar sem farið verður til Kinshasa, höfuðborgar landsins, til að bólusetja fjölda manns.

Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur einnig lagst í sams konar verkefni. Mun hún vinna með heilbrigðisráðuneytum Austur-Kongó og Angóla við að bólusetja rúmlega fjórtán milljónir manna í átta þúsund bæjum og borgum á svæðinu.

„Engin lækning þekkist við gulusótt og hún gæti orðið að heimsfaraldri. Bólusetningarherferðin í Kinshasa þarf að gerast núna svo við getum stöðvað gulusótt áður en hún dreifist um allan heim,“ sagði Heather Kerr, forstöðumaður Save the Children í Austur-Kongó.

Gulusótt er tilkynningaskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis á Íslandi og telst geta ógnað almannaheill..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×