Innlent

Langflest lögregluumdæmi upplýsa fjölmiðla um kynferðisbrot

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nær öll lögregluumdæmi landsins upplýsa fjölmiðla um kynferðisafbrotamál, óski þeir eftir því. Það verklag er haft á allan ársins hring. Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum eru einu undantekningarnar.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að lögreglan í Vestmannaeyjum ætlaði ekki að upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrr en eftir hátíðina. Málunum var eins háttað í fyrra.

Fréttastofa kannaði í dag eftir umdæmum lögreglu og sýslumanna hvernig verklagi er háttað varðandi upplýsingagjöf til fjölmiðla um kynferðisbrot. 

Á höfuðborgarsvæðinu er aldrei tilkynnt um kynferðisbrot af fyrra bragði og þau birtast ekki í dagbók lögreglu. Ef leitað er eftir fjölda tilfella er upplýst um það en aldrei er upplýst um rannsóknarhagsmuni. 

Sömu sögu er að segja á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra. 

Á Norðurlandi eystra eru fjölmiðlum veittar upplýsingar um mál sem þar koma upp óski þeir eftir því. Þannig er það allan ársins hring, en í umdæminu eru til að mynda haldnar útihátíðirnar Mærudagar, Bíladagar, Fiskidagurinn mikli og Ein með öllu um verslunarmannahelgina.

Austurlandi eru fjölmiðlar upplýstir um fjölda kærðra brota, kynferðisbrota sem annarra brota, sem upp koma. 

Það sama er uppi á teningnum á Suðurnesjum. Ef kynferðisbrot koma upp er því ekki leynt og þau meðhöndluð eins og önnur afbrot.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir aftur á móti að rannsóknarhagsmunir ráði því hvort fjölmiðlar séu upplýstir um kynferðisbrot í þeirra umdæmi. Í flestum tilfellum séu ekki veitar upplýsingar um slík brot fyrr en ákærur hafa verið gefnar út. Ef fréttamenn spurja hvort kynferðisbrot hafi verið framin og lögreglan telur það stangast á við rannsóknarhagsmuni svarar lögregla neitandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×