Enski boltinn

Jóhann: Ég er virkilega ánægður

Smári Jökull Jónsson í Mustad-höllinni skrifar
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með að sætið í undanúrslitum Dominos-deildarinnar væri tryggt og sagði spilamennskuna í einvíginu gegn Þór hafa verið góða heilt yfir.

„Ég get ekki verið annað en sáttur. Það voru einhverjir kaflar í Þorlákshöfn sem urðu okkur að falli þar en ég er sérstaklega ánægður með kvöldið í kvöld. Við héldum okkur inni í augnablikinu allan tímann og það hefur ekki gengið svona vel í allan vetur. Það er framför og ég er virkilega ánægður,“ sagði Jóhann Þór í samtali við Vísi eftir leik.

„Fyrri hálfleikur var mjög góður en Þórsararnir gefast ekkert upp og það var smá stress að þeir myndu ná okkur. Það að við héldum einbeitingunni skóp þetta og svo var varnarleikurinn góður. Lewis (Clinch) var frábær á báðum endum og ég er mjög sáttur,“ bætti Jóhann við.

Tobin Carberry leikmaður Þórs hefur verið einn besti maður deildarinnar í vetur en þrátt fyrir ágætis stigaskor hjá honum í kvöld gerðu Grindvíkingar honum afar erfitt fyrir og nýting hans í leiknum var ekki góð.

„Plan A var að lifa og deyja með því sem hann myndi gera og halda hinum í skefjum. Mér fannst það takast vel í dag en það tókst ekki í þeim leikjum sem við töpuðum í Þorlákshöfn. Það tókst í þeim leikjum sem við unnum.“

Grindavík heldur næst í Garðabæinn þar sem þeir mæta Stjörnunni í afar áhugaverðri undanúrslitaeinvígi.

„Þeir eru með hörkulið og góða leikmenn í öllum stöðum. Það verður verðugt verkefni fyrir okkur og við höfum lagt upp með það að njóta þess að fá að taka þátt í þessu. Það er fullt af fólki, það er sjónvarp og fullt af gaurum heima að horfa á og eru hundsvekktir.“

„Við mætum í Bláa Sovétið á fimmtudag og bara „let´s go“,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×