Innlent

Sónar Festival slítur samstarfssamningi við Sónar Reykjavík ehf

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk. Vísir/Stefán
Sónar Festival og móðurfélag þess, Advanced Music SL, hafa slitið samstarfssamningi við fyrirtækið Sónar Reykjavík ehf sem Björn Steinbekk hefur verið í forsvari fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sónar Festival.

Björn hefur mikið verið í umræðunni undanfarið eftir að hafa selt fólki miða á leik Frakklands og Íslands í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta. Hluti þeirra sem keypti miða af Birni komst aldrei á leikinn líkt og greint hefur verið frá en Björn bað þá sem keyptu miða af honum um að millifæra inn á reikning Sónar Reykjavík.

Í liðinni viku sór Sónar hátíðin af sér öll tengsl við viðskiptahætti Björns og er það ítrekað í tilkynningu hátíðarinnar nú. Þá kemur einnig fram að Björn hafi engin tengsl lengur við Sónar Festival eða vörumerkið Sónar.

 

Í tilkynningunni segir að Sónar stefni enn að því að halda tónlistarhátíðina í Reykjavík á næsta ári en hátíðin var fyrst haldin hér árið 2013. Unnið er nú að því að tryggja framtíð hátíðarinnar hér á landi og verið er að leita lausna svo hún verði ennþá hluti af tónlistarlífinu í Reykjavík á komandi árum.

Þá segir jafnframt að réttindi þeirra sem nú þegar hafi keypt sér miða á Sónar Reykjavík 2017 séu óbreytt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×