Erlent

Fótboltaæði hafði góð áhrif á heilsu Færeyinga

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Heilbrigðisyfirvöld Færeyja íhuga að láta iðkun hópíþrótta í íþróttafélögum verða lið í meðferð sjúklinga með lífsstílssjúkdóma á byrjunarstigi.
Heilbrigðisyfirvöld Færeyja íhuga að láta iðkun hópíþrótta í íþróttafélögum verða lið í meðferð sjúklinga með lífsstílssjúkdóma á byrjunarstigi. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Fótboltaæði greip um sig í Færeyjum í fyrra. Þá buðu Háskóli Færeyja og færeyska knattspyrnusambandið öllum fullorðnum íbúum eyjanna að taka þátt í rannsókn á heilsufarslegum áhrifum af því að iðka knattspyrnu í 18 vikur.

Niðurstöðurnar eru svo góðar að heilbrigðisyfirvöld Færeyja ræða möguleikann á því að láta iðkun hópíþrótta í íþróttafélögum verða lið í meðferð sjúklinga með lífsstílssjúkdóma á byrjunarstigi, eins og hjarta- og æðasjúkdóma og áunna sykursýki.

Alls tók 741 þátt í rannsókninni í fyrra eða 2,1 prósent allra yfir tvítugt, að því er danska ríkisútvarpið segir. Þátttakendur voru nær allir konur sem æfðu að meðaltali tvisvar til fjórum sinnum í viku í 15 fótboltafélögum. Þegar verkefninu lauk héldu 42 prósent áfram að iðka fótbolta.

Haft er eftir stjórnanda verkefnisins, að félagslegi þátturinn við iðkun hópíþrótta og leikurinn séu afgerandi. Menn hætti síður í hópíþróttum en einstaklingsíþróttum.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júlí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×