Erlent

Einni stærstu tölvuárás allra tíma beint að bloggara

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ein stærsta tölvuárás sem gerð hefur verið í sögu internetsins beindist að einum bloggara og vefsíðu hans. Sérhæfir hann sig í netöryggi og hefur að undanförnu flett ofan af aðilum sem framkvæma slíkar árásir. BBC greinir frá.

Árásin var gerð á vefsíðu Brian Krebs og var hún svokölluð Distributed Denial of Service Attack (DDOS) sem er gerð með því stýra umferð inn á vefsíður í því magni að þær taka ekki lengur við heimsóknum og liggi niðri. Þegar mest lét var um 620 gígabitum á sekúndu, því sem nemur um 77 gígabætum, beint á vefsíðu Krebs.

Krebs lýsir árásinni á nákvæman hátt á vefsíðu sinni sem merkilegt nokk þoldi álagið. Krebs og aðrir netöryggissérfræðingar hófu um leið aðgerðir til þess að verja síðuna svo hún myndi ekki detta niður. Segir Krebs að árásin hafi verið nærri tvöfalt umfangsmeiri en hann hafi áður séð.

„Þetta var ein stærsta tölvuárás sem sést hefur á internetinu,“ skrifar Krebs. Netöryggisfyrirtækið Akamai segir að þeir sem gerðu árásina hafi nýtt sér veikleika í lykilorðum tækja sem tengd eru netinu á borð við netbeina og netmyndavéla. Þeir hafi svo stýrt þeim til þess að senda umferð í gríðarlegu magni inn á vefsíðu Krebs.

Telur hann líklegt að árásin tengist grein sem hann skrifaði fyrr í mánuðinum þar sem hann nafngreindi tvo karlmenn sem framkvæmda DDOS árásir gegn greiðslu. Voru þeir báðir handteknir eftir að grein Krebs birtist á netinu en í upplýsingum sem fylgdi árásinni var kallað eftir því að öðrum þeirra yrði sleppt úr haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×