Fótbolti

Kolbeinn: Erum góðir gegn toppliðunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
„Stemningin er alltaf góð í þessum hóp. Það er gott að vera kominn,“ segir framherjinn Kolbeinn Sigþórsson en landsliðið er komið til Annecy í Frakklandi eins og flestum ætti að vera kunnugt um.

Strákarnir unnu stórsigur á Liechtenstein í síðasta leik sínum fyrir Frakkland og Kolbeinn segir í samtali við KSÍ að það hafi verið gott að fara með sigur á bakinu til Frakklands.

„Þetta voru flott úrslit. Við komum ferskir inn í þetta mót. Við fengum smá vakningu á móti Norðmönnum en það var gott að enda þetta með sigri fyrir mót. Við förum fullir sjálfstrausts inn í fyrsta leik,“ segir Kolbeinn en fyrsti leikur er gegn Portúgal á þriðjudag.

„Ég er bjartsýnn fyrir þann leik. Við höfum sýnt að við erum góðir gegn þessum toppliðum. Við þurfum að eiga frábæran leik til þess að ná góðum úrslitum. Við verðum að vera varkárir í þessum leik og halda okkar sterka varnarleik. Svo getum við vonandi náð að henda einu til tveim mörkum í þá.“

Cristiano Ronaldo fékk gott frí á Ibiza eftir langt tímabil með Real Madrid en kom sterkur til baka í gær gegn Eistum og skoraði tvö mörk.

„Ronaldo virðist vera ferskur. Við þurfum að finna leið til þess að stoppa hann. Taka svo gömlu góðu liðsheildina á þetta.“

Viðtalið við Kolbein í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×