Innlent

Skemmtiferðaskipamógúll leigir út Hörpu og Sinfoníuna

Bergþór Másson skrifar
Richard D. Fain.
Richard D. Fain. Vísir/Getty
Auðkýfingurinn Richard D. Fain, sem er stjórnarformaður og forstjóri eins stærsta skemmtiferðaskipafélags heims, Royal Caribbean Cruises, leigði út Sinfoníuhljómsveit Íslands til að spila á einkatónleikum fyrir sig og fylgdarlið sitt á föstudaginn síðastliðinn í Hörpu. RÚV greinir frá þessu.

Vanalega er það erfitt fyrir Sinfóníuhljómsveitina að spila á svona einkatónleikum, en í þetta skipti reyndist auðvelt að smala hljómsveitinni saman vegna þess að þau voru hvort eð er á æfingum fyrir Menningarnæturtónleika sína.

Tónleikarnir voru um það bil klukkustund að lengd og voru um það bil áttatíu gestir í Eldborborgarsal Hörpu. Sinfoníuhljómsveit leikur vanalega fyrir fullri Eldborg á fimmtudagskvöldum. Eldborg tekur 1800 manns í sæti.

RÚV greinir frá því að Fain hafi borgað hljómsveitinni 5 milljónir fyrir tónleikana.

Fain, sem er sjötíu ára, er nokkurskonar goðsögn í skemmtiferðaskipabransanum og rekur fyrirtæki hans 49 skip sem sigla til um það bil 500 mismunandi hafna út um allar sjö heimsálfurnar. Hann hefur verið fortjóri fyrirtækisins í 30 ár.

Hann er greinilega mikill sinfóníuunnandi en nýjasta skip fyrirtækis hans heitir einfaldlega „Sinfónía Sjósins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×