Innlent

Þrjú mál til rannsóknar vegna gruns um brot á samkomubanni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson og Alma D. Möller á fundinum í dag.
Víðir Reynisson og Alma D. Möller á fundinum í dag. Lögreglan

Lögregla rannsakar nú þrjú mál þar sem grunur leikur á að samkomubannið hafi verið brotið. Einu máli hefur lokið með sektargreiðslu þar sem brotið hafði verið gegn samkomubanni.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis um kórónuveiruna sem haldinn var í dag, venju samkvæmt.

Víðir var spurður um hvers konar brot væri að ræða og sagðist hann ekki hafa nákvæmari upplýsingar um málin þar sem ekki væri annað skráð í málaskrá lögreglu en að málin vörðuðu meint brot á samkomubanninu.

Vísir greindi frá því í gær að þrátt fyrir háværa umræðu á samfélagsmiðlum um hið gagnstæða var nýliðin helgi hin rólegasta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynningar um hávaða í heimahúsum voru þannig ekki fleiri en gengur og gerist um venjulega helgi og ekkert tilfelli var brotlegt við samkomubannið að sögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur sem er settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×