Skoðun

Hvað ætlar ríkisstjórnin að láta sauðfjárbændur standa lengi á brúninni?

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar
Það er sorglegt og í raun pínlegt að horfa uppá ráðaleysi eða viljaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar til að taka á þeim gríðarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum.

Ráðherra landbúnaðarmála hefur vart virt bændur viðlits, hvað þá hlustað á varnaðarorð þeirra. Það er löngu ljóst að landbúnaðarráðherra ræður ekki við hlutverkið og því þarf að færa lausn þessa máls frá ráðherranum og það fyrir löngu. Bændur hafa bent á lausnir og mörg fordæmi eru erlendis frá fyrir því að stjórnvöld komi matvælaframleiðslu til aðstoðar.

Árin 2015 og 2016 samþykkti Evrópusambandið (ESB) að veita rúmum 217,5 milljörðum íslenskra króna (á gengi dagsins) til að styðja við mjólkuriðnaðinn. Þetta voru sértækar aðgerðir, til viðbótar við almennan stuðning sambandsins við greinina.

Nú hafa ráðherrar Viðreisnar veik hné þegar ESB ber á góma og ættu því að geta réttlætt fyrir sér sérstækar aðgerðir til handa íslenskum bændum í takt við aðgerðir draumalandsins.

Ef heildarmyndin er skoðuð þá er miklu meira undir en eingöngu sauðfjárbúin. Það er byggðin um landið, það er ferðaþjónustan í sveitunum, það er öll önnur starfsemi sem fylgir byggð í sveitum landsins. Allt þetta er undir. Þetta snýst um miklu meira en landbúnaðinn einan.

Hvað er hægt að gera? Ég beitti mér fyrir því að ríkisstjórn Framsóknarflokks setti 100 milljónir króna í aukið markaðsstarf lambakjöts. Skoða þarf að auka þá fjármuni, setja á útflutningsskyldu en strax þarf ríkið að kaupa upp þær birgðir sem fyrir eru. Mikil hagræðing hefur orði í umhverfi afurðastöðva undanfarin ár en þar þarf áfram að hagræða. Fækka þar stóru afurðastöðvunum og einfalda umgjörð þeirra sem vilja bjóða uppá beint frá býli. Bændur hafa haft hugmyndir um hvernig draga má úr framleiðslu og er eðlilegt að skoða það vandlega.

Mestu skiptir að brugðist sé strax við, fordæmin eru til en svo virðist sem ríkisstjórnina skorti vilja.

Höfundur er alþingismaður og fyrrverandi Utanríkis- og Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×