Innlent

Heldur ekki fullum launum út kjör­tíma­bilið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Gunnarsson lætur þegar af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Guðmundur Gunnarsson lætur þegar af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Vísir/Egill

Guðmundur Gunnarsson, fráfarandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að hann komi ekki til með að halda fullum launum út kjörtímabilið. Starfslokasamningur hans bíður nú samþykktar bæjarstjórnar.

Þetta kemur fram í samtali Guðmundar við mbl. Þar segist hann þó ekki vilja tjá sig nánar um efni samningsins.

Í gær var tilkynnt um að Guðmundur léti af störfum sem bæjarstjóri, en í yfirlýsingu frá Ísafjarðarbæ segir að ástæða starfslokanna sé ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins.

Þá hefur Fréttablaðið greint frá því að Guðmundi og Daníel Jakobssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, hafi lent saman eftir bæjarstjórnarfund. Arna Lára Jónsdóttir hafi þá þurft að ganga á milli þeirra. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Haft er eftir Örnu Láru á vef Bæjarins besta að augljóst sé að það hafi verið samskiptaörðugleikar sem leiddu til starfsloka Guðmundar. Hún telji að framsóknarmenn í Ísafjarðarbæ hljóti að vera hugsi yfir stöðu sinni í bæjarmeirihlutanum.

„Það var að þeirra undirlagi og kosningaloforð að það var auglýst eftir bæjarstjóra og ég hef litið svo á Guðmundur hafi verið þeirra maður, ef hægt er að segja svo. Það er ekkert launungarmál að Sjálfstæðisflokkurinn tefldi Daníel Jakobssyni fram sem bæjarstjóra en féllust svo á að auglýsa,“ segir hún.

Þá segir hún Guðmund einnig hafa verið vel liðinn í bænum og að margir bæjarbúar hafi verið ósáttir við málalok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×