Innlent

„Ég fæddist ekki til að fara í taugarnar á netverjum“

Kristján Hjálmarsson skrifar
„Það er ákveðin stefnubreyting. Ég er búinn að vera í þessu heillengi og kominn tími til að fara að gera eitthvað annað. Þetta hefur verið svolítið lýjandi fyrir mig og fjölskylduna. Það er ekki auðvelt að vera í þessari baráttu," segir Snæbjörn Steingrímsson, sem lætur brátt af störfum sem framkvæmdastjóri Smáís.

Snæbjörn hefur verið fremstur í flokki í baráttunni gegn ólöglegu niðurhali. Hann segir það versta við baráttuna hvað hún hafi verið persónugerð. „Þetta er starf og það eru margir sem misskilja það og halda að ég sé í heilagri herferð - ég hafi fæðst til að fara í taugarnar á netverjum. Þetta eru ekki stór samtök þannig að ég er ekki með mjög marga í kringum til að taka hríðirnar með mér. Ég hef verið í forsvari fyrir samtökin í talsverðan tíma en nú er komið að tímamótum. Þetta verður mikill léttir fyrir fjölskylduna.“

Það er óhætt að segja að Snæbjörn hafi orðið fyrir skítkasti meðal netverja. Hann segir að það hafi tekið á. Hann hafi þó ekki fengið líflátshótanir eins og fyrrirenni hans.

„Það kom fyrir að það var verið að benda fólki á hvar ég bý og í hvaða skóla börnin mín ganga. Það eru óbeinar hótanir fólgnar í því þó aldrei hafi orðið neitt úr þeim. Það hefur aldrei verið ráðist á mig líkamlega,“ segir Snæbjörn.

„Þetta hefur verið erfitt fyrir mig sjálfan og þá sem eru í kringum mig. Það getur líka verið erfitt að geta ekki alltaf svarað þessum árásum.“

Snæbjörn segir að verið sé að skoða ákveðnar breytingar hjá Smáís og því sé kjörið tækifæri fyrir hann að breyta til. „Ég er að klára lögfræði og ætla að einbeita mér að henni. Vonandi eru spennandi tímar framundan," segir Snæbjörn.

Spurður hvort baráttan gegn ólöglegu niðurhali sé töpuð segir Snæbjörn. „Baráttan er ekki töpuð en við erum ekki að fara að sjá algjöran sigur - í hvoruga áttina. Baráttan heur líka færst svolítið gegn gráa markaðinum, þegar fólk kaupir þjónustu sem er lögleg í öðrum löndum en ekki hér. Það er allt öðruvísi barátta sem kallar kannski á öðruvísi leiðir en hefur verið farið hingað til. Ég hugsa nú að stærsti sigurinn verði ef rétthöfum tekst að fjölga valmöguleikum hér á landi. Ef úrvalið yrði aukið hér á landi held ég að það myndi einfalda þessa baráttum mikið,“ segir Snæbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×