Lífið

Endurupplifa æskuna með NBA-körfuboltamyndum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úlfar Freyr Jóhannsson og Ingólfur Ástmarsson stofnuðu NBA-myndahópinn í desember.
Úlfar Freyr Jóhannsson og Ingólfur Ástmarsson stofnuðu NBA-myndahópinn í desember. vísir/andri marínó
Í lok desember tóku tveir menn á fertugsaldri sig saman og stofnuðu Facebook-hópinn NBA körfuboltamyndir – kaupa, selja, skipta. Sem stendur eru meðlimir hópsins níutíu.

„Við Ingólfur þekktumst ekkert áður en við stofnuðum hópinn,“ segir Úlfar Freyr Jóhannsson en hann stofnaði hópinn ásamt Ingólfi Ástmarssyni. „Þetta hafði verið stórt áhugamál hjá mér áður og þegar það blossaði upp aftur leitaði ég á netinu. Þar kynntist ég Ingólfi eftir auglýsingu á bland.is.“

„Ég fór ekki úr unglingavinnunni í 8. bekk án þess að kaupa mér pakka af myndum,“ segir Ingólfur Ástmarsson. Hann gerði þau mistök að selja myndirnar sínar síðar meir og byrjaði með autt blað á nýjan leik nú síðasta haust. „Ég hef pantað myndir að utan og á nú nokkuð gott safn, einhverjar þrjár möppur.“

Þeir segja að flestir í hópnum safni svokölluðum Draumaliðsleikmönnum, þ.e. leikmönnum sem skipuðu landslið Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Barcelona. Það var í fyrsta skipti sem NBA-leikmenn voru í landsliðinu. Þar mátti finna andlit á borð við Michael Jordan, Karl Malone, John Stockton, Magic Johnson, Larry Bird og þá eru aðeins fáir upptaldir.

Hér ber að líta myndir þeirra félaga.vísir/andri marínó
„Það kom upp sú hugmynd hjá einhverjum hvort það væri ekki vit í að flytja inn myndir,“ segir Úlfar. Ekki var tekið vel í þá hugmynd þar sem á þeim myndum hefðu verið leikmenn sem spila í dag.

„Ég á nokkra LeBron og Durant og menn sem koma og skoða safnið mitt vilja ekki sjá þá,“ bætir Úlfar við. Í augnablikinu sé það að mestu Jordan- og Wu-Tang-kynslóðin sem er í hópnum.

Ingólfur segir að viðbrögðin hafi verið miklu meiri en þeir bjuggust við. Hann þekki dæmi þess efnis að fólk hafi grafið upp gamlar myndir úr kjöllurum og geymslum til að taka þráðinn upp á nýjan leik.

„Fólk hefur verið að skiptast á og selja myndir. Það hefur líka verið talað um að hittast en af því hefur ekki orðið enn þá,“ segir Ingólfur.

Að sögn Úlfars er verðið á myndum hérlendis enn nokkuð hátt. „Þegar við vorum ungir þá eyddi maður svo miklum pening í myndirnar sem í dag eru næsta verðlausar. Mig grunar að markaðurinn eigi eftir að breytast eitthvað.“ Hann bendir einnig á að hann sé í sambærilegum dönskum hópi sem sé enn fámennari en sá íslenski.

Þeir sem hafa áhuga á málinu geta leitað að hópnum á Facebook og fengið aðgang að honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×