Skoðun

Frestun á skatt­greiðslum er vara­samt sprengju­svæði

Þórir Garðarsson skrifar

Gott og vel - til að mæta áföllum vegna kórónuveirunnar bauð ríkisstjórnin fyrirtækjum að fresta því fram í janúar á næsta ári að skila staðgreiðsluskatti á allt að þremur greiðslum ásamt því að fresta skilum á virðisaukaskatti án sérstakrar álagningar.

En hvað svo, hvað ef ástandið versnar svo mikið hjá fyrirtækjunum að þau geta ekki staðið við greiðslur þegar þar að kemur? Jú, þá teljast framkvæmdastjórar og stjórnarmenn fyrirtækjanna hafa framið skattalagabrot. Við því liggja sektir og fangelsisrefsing.

Með þessu boði ríkisvaldsins er verið að leiða stjórnendur fyrirtækja inn á vægast sagt varasamt sprengjusvæði. Hjá fyrirtækjum sem hafa misst nær allar tekjur og sjá fram á tekjuleysi næstu mánuði eða ár getur valið staðið á milli þess að greiða laun eða greiða skatta. Ábyrgur stjórnandi stendur við launagreiðslur meðan hann mögulega getur. Því er freistandi að þiggja boðið um að fresta skattskilum. En það getur reynst hinn versti bjarnargreiði ef allt fer á versta veg. Ríkisvaldið sækir af hörku á þá einstaklinga sem eru ábyrgir fyrir skattskilum. Mýmargir dómar um sektir og fangelsisvist vegna skattalagabrota segja allt sem segja þarf.

Það er ekki nóg fyrir ríkið að segja A ef B fylgir ekki á eftir. Ekkert hefur verið gefið út um það hvort vanskil á frestuðum skattgreiðslum verða gerð refsilaus. Meðan það liggur ekki fyrir standa þúsundir stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum frammi fyrir erfiðu vali um hvernig á að ráðstafa síminnkandi tekjum þessa dagana. Á að greiða launin eða skattinn og henda inn handklæðinu.

Höfundur er stjórnarformaður Allrahanda Gray Line.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×