Innlent

Loftleiðir fóru í sína fimmtugustu heimsreisu þar sem miðinn kostar á annan tug milljóna

Birgir Olgeirsson skrifar

Loftleiðir fóru í sína fimmtugustu heimsreisu um liðna helgi með farþega sem greiða á annan tug milljóna fyrir slíka ferð. Farið er í lúxusflugvél þar sem sannarlega má halla sætunum aftur.

Loftleiðir gerir út tvær Boeing 757 farþegaþotur sem hafa verið endurhannaðar að innan. Vanalega tekur slík vél um 183 í sæti. Í einni vél Loftleiða eru þó aðeins 50 sæti en 80 í hinni. Fimmtugasta ferðin tekur 21 dag. Byrjaði er í Bandaríkjunum og farið víðsvegar um heiminn.

Erlendar ferðaskrifstofur selja í þessar vélar. Um er að ræða tvær ferðaskrifstofur í Bandaríkjunum, eina í Þýskalandi og eina í Ástralíu, sem Loftleiðir eru í viðskiptum við.

Mest megnis eru það erlendir viðskiptavinir sem kaupa slíkar ferðir.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að veita farþegunum einstaka þjónustu, upplifun og fræðslu,“ segir Jóhann Gísli Jóhannsson, sölustjóri Loftleiða.

Jóhann Gísli Jóhannsson, sölustjóri Loftleiða.Vísir/Baldur

Hann segir verðið vera misjafnt eftir ferðaskrifstofu og lengd ferðarinnar.

„Að meðaltali eru þetta 100 til 140 þúsund dollarar á manninn sem þetta kostar. Inni í því er allskonar landþjónusta hótel og leiðsögumenn, matur og allt þess háttar,“ segir Jóhann.

Hann segir þá sem kaupa sæti í slíka ferðir hafa takmarkaðan tíma.

„Og vill sjá sem mest á sem skemmstum tíma og nær að gera það í svona ferð. Ef þeir væru að fara með áætlunarflugi á alla þessa staði myndi það taka helmingi lengri tíma,“ segir Jóhann.

Og áhöfnin er íslensk. Hún samanstendur af þrautreyndum flugstjórum, vel þjálfuðum flugþjónum og tveimur meistarakokkum. Lent er á erfiðum flugvöllum í Katmandu, Páskaeyjum og við Kilimanjaro, sem þarfnast sérstakrar þjálfunar.

Fyrsta ferðin var farin árið 2004 og segir Jóhann starfsfólk Loftleiða orðið ansi vant og fátt sem kemur því á óvart varðandi ferðalög á framandi slóðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×