Handboltamaðurinn Bjarki Már Elísson er léttur og skemmtilegur yfirleitt í viðtölum. Hann var í viðtali í Sportinu í dag en Bjarki Már var á dögunum krýndur markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar.
Bjarki Már sem spilar með Lemgo var efstur með 216 mörk, fjórtán á undan Hans Lindberg, er deildin var blásin af. Lemgo var í 10. sæti deildarinnar en Bjarki bíður nú eftir markakóngstitlinum í pósti.
Hann var í treyju frá AG Kaupmannahöfn í viðtalinu í dag en Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson léku meðal annars með liðinu áður en það varð gjaldþrota. Hver er sagan á bakvið búninginn?
„Þetta er góð saga. Nú er ég að reyna láta eins og ég hafi ekki vitað að þú ætlaðir að spyrja mig að þessu,“ sagði Bjarki Már glaður í bragði.
„Þetta er AG Kaupmannahöfn. Ég var í menningarferð í Köben 2012. Ég fór á úrslitaleik AG og Bjerringbro/Silkeborg með tveimur félögum mínum. Á einhvern óskiljanlegan hátt þá náðum við að koma okkur niður í klefa hjá AG sem er sennilega næst stærsta afrekið á ferlinum fyrir utan þennan markakóngstitil sem ég var að vinna.“
„Ég var að láta gaurana skrifa á bolinn í liðinu og svo kom að Óla Stef. Hann sagði svona: Ertu tilbúinn? Ég sagði honum bara skrifa nafnið og þá væri þetta búið. Þá skrifaði hann: Things turn out best for the people who make the best of the way things turn out.“
„Ég var í fýlu út í hann í svona viku því ég vildi ekki að hann myndi skrifa svona mikið á bolinn en þetta á vel við tíðarandann og fólk á að hugsa svona í dag og spila vel úr spilunum,“ sagði Bjarki í léttum tón.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.