Viðskipti innlent

Dregur úr vöruskiptahalla

Gámar í Sundahöfn.
Gámar í Sundahöfn. Mynd/GVA

Vörur voru fluttar út fyrir 43,2 milljarða krónur á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs en inn fyrir 54,4 milljarða. Þetta merkir, að vöruskipti við útlönd voru neikvæð um 11,2 milljarða krónur. Til samanburðar voru viðskiptin neikvæð um 18,7 milljarða á sama tíma fyrir ári, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Í febrúarmánuði voru fluttar út vörur fyrir 23,9 milljarða króna og inn fyrir 29,0 milljarða króna. Það jafngildir því að vöruskipti hafi verið neikvæð upp á 5,0 milljarða krónur. Á sama tíma í fyrra voru vöruskiptin óhagstæð um 8,8 milljarða á sama gengi.

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar nam verðmæti útflutnings á fyrstu tveimur mánuðum ársins 6,6 milljörðum sem er 17,9 prósenta aukning á föstu gengi frá sama tíma í fyrra. Sjávarafurðir voru 47 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 4,5 prósentum meira en í fyrra. Útfluttar iðnaðarvörur voru 47 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 66,9 prósentum meira en árið áður.

Verðmæti vöruinnflutnings á þessu tveggja mánaða tímabili nam 900 milljónum króna eða 1,7 prósentum minna á föstu gengi en á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs. Mestur varð samdráttur í innflutningi á fólksbílum og flugvélum en á móti kom aukning í innflutningi á fjárfestingarvöru, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×