Íslenski boltinn

Goðsögnin Guðmundur Steinsson á Stöð 2 Sport á föstudag | Sjáðu stikluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fimmti þátturinn af Goðsögnum efstu deildar verður frumsýndur á föstudaginn klukkan 21.00 á Stöð 2 Sport.

Í þessum fimmta þætti Goðsagnaseríunnar verður fjallað um markaskorarann Guðmund Steinsson sem var aðeins annar leikmaðurinn í sögunni sem náði að skora hundrað mörk í efstu deild.

Áður hefur verið fjallað um Inga Björn Albertsson, Ragnar Margeirsson, Pétur Ormslev og Hörð Magnússon.

Guðmundur Steinsson er þriðji markahæsti og sautjándi leikjahæsti leikmaður efstu deildar karla en hann skoraði 101 mark í 228 leikjum frá 1978 til 1996.

Guðmundur er markahæsti leikmaður Fram í efstu deild með 80 mörk en hann vann átta stóra titla með félaginu, þrjá Íslandsmeistaratitla (1986, 1988 og 1990) og fimm bikarmeistaratitla (1979, 1980, 1985, 1987 og 1989).

Guðmundur varð einnig Íslandsmeistari, mahæstur og leikmaður ársins þegar hann spilaði með Víkingum sumarið 1991 en hann skoraði sitt hundraðasta mark í búningi Víkingsliðsins sumarið 1993.

Garðar Örn Arnarson er leikstjóri þáttanna en í spilaranum hér að ofan má sjá stikluna fyrir þáttinn um Gumma Steins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×