Innlent

ÖBÍ segir úrskurð stórsigur þrátt fyrir frávísun aðalkröfu

Öryrkjabandalagið segir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur vegna samkomulags við öryrkja fyrir þremur árum sé stórsigur fyrir bandalagið. Dómurinn vísar frá aðalkröfu öryrkja en samþykkir varakröfuna, um að dómurinn muni úrskurða um greiðsluskyldu stjórnvalda vegna samkomulagsins.

Samkomulag náðist milli Öryrkjabandalagsins og heilbrigðisráðherra í mars 2003 um að tvöfaldaður yrði lífeyrir þeirra sem metnir hefðu verið sjötíu og fimm prósent öryrkjar eða meira og væru á aldrinum átján ára eða yngri en viðbótin færi stiglækkandi ár frá ári fram til sextíu og sex ára aldurs.

Tryggingastofnun ríkisins mat það svo í apríl 2003, að það myndi kosta rúmlega einn og hálfan milljarð að efna samkomulagið. Þegar mælt var fyrir fjárlagafrumvarpi ársins 2004 var einungis gert ráð fyrir milljarði.

Öryrkjabandalagið höfðaði mál í nóvember í fyrra til að knýja fram efndir. Ríkið krafðist þess hins vegar að kröfum bandalagsins yrði vísað frá dómi.

Héraðsdómur vísaði frá dómi aðalkröfunni um að viðurkennt yrði með dómi, að samkomulag hefði náðst árið 2003 milli Öryrkjabandalagsins og heilbrigðisráðherra um hækkun lífeyris þeirra sem metnir hafi verið 75% öryrkjar eða meira og að ráðherra yrði gert að viðlögðum dagsektum að leggja fram frumvarp á Alþingi sem mælti fyrir um lagabreytingar þessu tengdu. Dómurinn ætlar hins vegar að taka til meðferðar greiðsluskyldu vegna samkomualgsins.

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Öryrkjabandalagsins, segir það í raun stórsigur þar sem þetta verði fyrsta mál sinnar tegundar og hafi þar með ótvírætt fordæmisgildi, til að mynda í þeim málum þar sem stjórnvöld komi að lausn kjarasamninga, ef deilur komi upp um efndirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×