Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Tinda­stóll 76-79 | Spennusigur Stólanna

Arnór Fannar Theodórsson skrifar
vísir/bára

Haukar tóku á móti Tindastól í 18. umferð Dominos-deild karla í kvöld. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í kvöld og því mátti búast við hörkuleik. Heimamenn í Haukum voru búnir að vinna fimm leiki í röð á meðan Stólarnir voru búnir að vinna síðustu tvo. Tindastóll vann sterkan sigur, 79 - 76, eftir æsispennandi leik.

Fyrsti leikhluti einkenndist af mikilli baráttu og sterkum vörnum liðanna. Það var strax ljóst í upphafi að spennustigið yrði hátt í þessum leik. Leikurinn var gríðarlega jafn en Stólarnir voru þó alltaf hálfu skrefi á undan. Það gekk illa hjá liðinum að skora í fyrsta leikhluta en liðin voru 0 af 17 í þriggja stiga skotum. Stólarnir leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 14-11.

Í byrjun annars leikhluta fóru Stólarnir að setja skotin sín niður. Þeir náðu snemma 10 - 0 kafla og staðan skyndilega orðin 26 – 13 fyrir Tindastól. Áfram var hart barist innan sem utan vallar en Stólarnir leiddu með 11 stigum þegar fyrri hálfleikur kláraðist.

Jasim Perkovic fékk tæknivillu fyrir að mótmæla dómi eftir að leiktími í fyrri hálfleik kláraðist. Kári Jónsson, leikmaður Hauka, byrjaði því þriðja leikhluta á því að að taka eitt tæknivíti. Eftir það hófust leikar og var þriðji leikhluti nokkuð kaflaskiptur. Liðin skiptust á að taka áhlaup og oft á tíðum var baráttan í fyrirrúmi en ekki fallegur körfubolti. Haukar unnu þriðja leikhluta með fjórum stigum og voru 7 stigum undir fyrir loka leikhlutann.

Það stefndi allt í spennandi fjórða leikhluti og sú varð svo sannarlega raunin. Haukar héldu áfram að saxa á forskort gestana en alltaf þegar Haukar gerðu sig líklega til þess að jafna þá svöruðu Stólarnir. Haukar náðu forystunni mest niður í tvö stig en komust ekki lengra eftir æsispennandi lokamínútur þar sem Stólarnir náðu að klára leikinn með góðum þriggja stiga sigri, 79 – 76.

Af hverju vann Tindastóll?

Leikurinn var jafn undir lokin og hefði getað dottið báðum megin en Stólarnir voru einfaldlega betri þegar mest á reyndi, undir lok leiksins. Ef tölfræðin er skoðuð þá hittu Stólarnir líka betur, það skiptir öllu máli í þessu að hitta úr skotunum sínum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að skora framan af og sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Liðin voru 0 af 17 í þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta og Haukar með 12% þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik. Haukar enda með 20% þriggja stiga nýtingu á móti 27% hjá Stólunum. Það má því segja að liðunum hafi gengið illa að hitta.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Tindastól voru það Jasmin Perkovic, Deremy Terrell Geiger og Sinisa Bilic atkvæðamestir

Perkovic var gríðarlega öflugur í kvöld en hann var með 13 stig og 14 fráköst. Sinisa Bilic skilaði 16 stigum á meðan Geiger var með 12 stig og 5 stoðsendingar

Hjá Haukum voru það Kári Jónsson og Flenard Whitfield sem sáu um stigaskorið. Whitfield var góður í kvöld eins og svo oft áður í vetur en hann endaði með 21 stig og 7 fráköst. Kári Jónsson einnig að spila vel í kvöld en hann skilaði 22 stigum og 8 stoðsendingum.

Hvað tekur við næst?

Næst tekur við smá pása í deildinni á meðan bikarkeppnin klárast. Tindastóll spilar til undanúrslita í bikarnum á móti Stjörnunni en Haukar fá frí. Í deildinni taka Haukar næst á móti Keflavík í Keflavík á meðan Stólarnir fá Fjölnismenn í heimsókn.

Baldur Þór Ragnarsson: Hrikalega ánægður að vinna á sterkum útivelli á móti hörkuliði

„Hrikalega ánægður að vinna á sterkum útivelli á móti hörkuliði“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, eftir sigur sinna manna á útivellli í kvöld.

„Við vorum hrikalega öflugir í fyrri hálfleik og vorum að leiða með miklum mun, það var mikill styrkur í því. Þeir koma tilbaka og það fer mikil orka í það en annars eru þetta þéttar varnir allan leikinn og í sjálfum sér er þetta 50/50 leikur og endar svo okkar megin“ sagði Baldur aðspurður hvað hafi skilað þessum sigri í kvöld.

Það var mikil orka og stemning í Tindastólsliðinu í kvöld og var Baldur ánægður með sína menn.

„Ég er ánægður með orkuna og við erum með mikið af mönnum sem geta spilað. Mikið af mönnum sem geta spilað vörn og menn eru að leggja sig fram og vilja þetta.“

Tindastóll er með tvo Bandaríkjamenn og sagði Baldur að það væri að virka fyrir þá.

„Virkar fínt, það er ennþá að koma reynsla á þetta. Þetta er held ég þriðji leikurinn sem við erum að spila þeim báðum. Þeir eru báðir topp atvinnumenn og gaman að vinna með þeim.“

„Einn leikur í einu. Við ætlum að reyna að vinna alla leik sem eftir eru en núna verðum við að koma okkur niður á jörðina eftir þennan og skella sér í bikarstemningu“ sagði Baldur að lokum en Stólarnir eiga leik í undanúrslitum bikarsins í næstu viku.



Israel Martin: Það voru smáatriðin sem réðu úrslitum í kvöld

„Þetta var stórleikur og vel spilaður af báðum liðum. Ég veit að Stólarnir voru yfir í leiknum í næstum því fjörtíu mínútur en við gefumst aldrei upp. Við komum sterkir til baka, sérstaklega í seinni hálfleik og það voru smáatriðin sem réðu úrslitum í kvöld. Þeir skora 4-6 stig á síðustu sekúndunum eftir innköst og vítaskotin okkar voru ekki góð í kvöld, við erum með 57% vítanýtingu á meðan þeir eru með 92%. Ég er ánægður með frammistöðu liðins og komum í leikinn en smáatriðin réðu úrslitum í kvöld“ sagði Israel Martin, þjálfari Hauka, eftir svekkjandi tap sinna manna á heimavelli í kvöld.

„Þetta lið er að sýna karakter. Við erum að vinna í því og erum að vaxa sem lið. Eftir 25 mínútur byrjuðum við að spila góða vörn og vera agressívir, henda okkur á lausu boltana og loka teignum en þrátt fyrir að byrja svona seint þá náðum við samt að koma til baka. Við þurfum að nota þessa pásu sem kemur núna til þess að vera betri og berjast í síðustu fimm leikjunum.“

Kári Jónsson spilaði vel í kvöld og skoraði 22 stig. Israel var ánægður með hans leik í kvöld.

„Ég er ánægður með Kára og alla í liðinu. Eina sem ég hugsa er að ég spilaði honum of mikið í kvöld, 38 mínútur. Ég þarf að finna tíma til þess að gefa honum pásu, mögulega um miðjan síðasta leikhluta og treysta bekknum og gefa öðrum leikmönnum tækifæri. Við þurfum að hafa Kára ferskan í lok leikja. Hann tapaði boltanum tvisvar á síðustu mínutunum en hann ætlar sér að sjálfsögðu ekki að tapa boltanum, hann er einfaldlega þreyttur og það er á minni ábyrgð. Ég þarf að finna tíma til þess að gefa honum pásu fyrr í leikjunum þannig hann sé ferskur á lykilstundum á vellinum.“

Næsti leikur Hauka er á móti Keflavík og er það annar stórleikur fyrir Hauka.

„Á morgun mun ég fara horfa á KR - Keflavík. Þetta verður erfitt en við getum keppt við þá. Við munum spila okkar leik, trúa á okkar stráka og liðið okkar“ sagði Israel Martin að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira