Ballack ekki til United
Michael Ballack, fyrirliði þýska landsliðsins og leikmaður Bayern Munchen, hefur undanfarna mánuði verið orðaður við stórlið í allri Evrópu. Manchester United og Inter Milan hafa bæði verið orðuð við kaup á miðjumanninum sterka, en hann hefur nú lýst því yfir að líklegast sé að hann verði áfram hjá Bayern Munchen. "Þó ég hafi ekki ennþá skrifað undir samning við Bayern þá hef ég samt hug á því að vera hérna áfram. Ég hef metnað til þess að spila fyrir félag sem vill vinna allar keppnir sem það tekur þátt í. Bayern reynir það alltaf og það eru leikmenn hér sem geta hjálpað til við að ná þeim markmiðum. Ég ætla mér að skoða mín mál vel en eins og er ekkert sem ýtir undir það að ég sé á förum."