Innlent

Misskilnings gætt með frumvarp um rafræna þjónustu

Andri Eysteinsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir misskilnings hafa gætt með nýtt frumvarp ráðherra um aukna rafræna þjónustu vegna faraldurs kórónuveirunnar. Áslaug segir engar efnislegar breytingar gerðar á meðferð mála og aldrei hafi verið lagt til að uppboð gætu farið fram rafrænt.

Frumvarpið hefur verið gagnrýnt, bæði af stjórnarandstöðu, hagsmunasamtökum heimilanna og af netverjum, þar á meðal fyrrverandi ritara Samfylkingarinnar og varaforseta ungra jafnaðarmanna.

„Markmiðin með frumvarpinu er einungis að bæta þjónustu með rafrænum hætti og gera sýslumönnum m.a. kleift að fara að fyrirmælum sóttvarna,“ segir dómsmálaráðherra.

„Ég hef þó óskað eftir því við allsherjar- og menntamálanefnd að ákvæðin um rafræna fyrirtöku falli brott þar sem viljinn var skýr, að bæta rafræna þjónustu og einfalda sýslumanni að fylgja fyrirmælum um fjöldatakmarkanir og reyna að fækka óþarfa viðveru á skrifstofu sýslumanna en með engum hætti að breyta eða einfalda ferlið sjálft“ segir Áslaug en minnist á að vegna þess að ráðgert sé að hækka mörk fjöldatakmarkana á næstu vikum sé ekki eins áríðandi og talið var að bjóða upp á mætingu í gegnum fjarfundarbúnað.

Áslaug segir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu hafa brugðist við með ráðstöfun í húsnæði og auknum opnunartíma eftir að óskað var eftir því að embættið lágmarkaði áhrif faraldursins á störf með öllum tiltækum ráðum.

„Það mun þó enn muna verulega um að geta boðið upp á rafræna þjónustu vegna annarra mála sem fjallað er um í frumvarpinu og verða vonandi að lögum til hagsbóta fyrir alla,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×