Innlent

Alvarlega slasaður eftir árekstur

Ökumaður lítillar jeppabifreiðar slasaðist alvarlega eftir að hafa ekið utan í fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt og skollið framan á fóðurflutningabíl á Suðurlandsvegi í brekkunni fyrir ofan litlu Kaffistofuna í Svínahrauni skömmu fyrir klukkan hálf níu í gærmorgun. Jeppinn sem var á vesturleið með vagn í togi fór yfir á öfugan vegarhelming. Ekki er vitað af hverju, en sviptivindasamt er á þessum slóðum. Ökumann jeppans þurfti að klippa út úr bílnum og tók það um klukkustund, en hann var með meðvitund allan tímann. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var talið að maðurinn hefði hlotið fjölda beinbrota. Hann var fluttur á slysadeild í Fossvogi í Reykjavík og var í aðgerðum fram á kvöld. Kona sem ók fólksbílnum sem ekið var utan í var einnig flutt á slysadeild en útskrifuð fljótlega. Ökumann fóðurbílsins sakaði ekki. Miklar umferðartafir urðu vegna slyssins. Á meðan verið var að klippa manninn úr bílnum var umferð vísað um hjáleið, en svo þurfti að tæma fóðurbílinn áður en hægt var að flytja hann burt. Að sögn lögreglu komst ekki óskert umferð á aftur fyrr en klukkan korter gengin í tvö um daginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×