Innlent

Enginn starfsmaður hefur smitast af sjúklingi

Birgir Olgeirsson skrifar

Enginn starfsmaður Landspítalans á Covid-deildum hefur smitast af kórónuveirunni af sjúklingi við störf sín. Yfirlæknir smitsjúkdómalækninga spítalans segir miklar áhyggjur hafa verið af því í byrjun faraldursins en fagmennska og góður hlífðarbúnaður hafi komið í veg fyrir það.

Strax í janúar var settur á mikill viðbúnaður á heilbrigðisstofnunum vegna kórónuveirunnar.

„Þetta var auðvitað einn af þeim þáttum sem við höfðum hvað mestar áhyggjur af. Að starfsfólk okkar sem við teflum fram í framlínunni, myndi smitast og yrði veikt,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítalans.

Á þeim deildum þar sem tekið er á móti Covid-sjúklingum, gjörgæsludeildum, smitsjúkdómadeild og lungnadeild, hefur enginn starfsmaður fengið veiruna frá sjúklingi.

„Ég held það tali um fagmennsku, gæði hlífðarbúnaðarins og þeirrar starfsaðstöðu sem fólki hefur verið sköpuð.“

En hafa þá ekki komið upp nein tilvik smits utan úr samfélaginu inn á spítalann?

„Jú vissulega en við höfum ekki geta sýnt fram á annað en að það tengist komu gesta eða starfsmanna inn á deildirnar. Þess vegna höfum við verið að reyna að girða fyrir það og jafnframt að brýna fyrir um hegðun starfsmanna fyrir utan vinnutíma,“ sagði Már.

Hann segir erfitt að fara í samanburð við önnur lönd.

„Ef maður tekur Kína, þar sem fólk var að glíma við einhvern vágest sem það hafði ekki nema takmarkaða þekkingu á strax í byrjun. Það kannski lá fyrir að þetta gæti verið smitefni en það var ekki fullvissa um það. Síðan leiða rannsóknir það í ljós og áður en sú upplýsing kemur fram þá hefur folk tekið smit. Fólk hefur verið undir miklu álagi og veikist heiftarlega,“ segir Már Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×