Fótbolti

Mun milliríkjadeila koma í veg fyrir sölu Newcastle United?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Reikna má með að Sports Direct skiltið á heimavelli Newcastle fái að fjúka ef félagið fær nýja eigendur.
Reikna má með að Sports Direct skiltið á heimavelli Newcastle fái að fjúka ef félagið fær nýja eigendur. EPA-EFE/NIGEL RODDIS

Milliríkjadeila í Miðausturlöndum gæti komið í veg fyrir mögulega yfirtöku krónprins Sádi-Arabíu á Newcastle United samkvæmt The Guardian. 

Eins og hefur komið fram hér á Vísi þá stefnir í að konungsfjölskylda Sádi-Arabíu verði eigendur enska knattspyrnufélagsins Newcastle United á komandi vikum. Myndi fjölskyldan kaupa 80 prósent hlut í félaginu á tombóluverði, svona ef miðað er við aðrar eignir fjölskyldunnar.

Katarska sjónvarpsstöðin BeIN Sports hefur nú krafist þess að enska úrvalsdeildin skerist inn í og komi í veg fyrir yfirtöku fjölskyldunnar. Ástæðan er sú að Sádar bera ábyrgð á ólöglegri dreifingu ensku knattspyrnunnar um heim allan. Þannig ógni Sádar tekjum beIN Sports og öðrum dreifingaraðilum sem eiga útsendingarrétt af enska boltanum.

Samkvæmt heimildum The Guardian þá hafa forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar, ásamt rétthöfum og yfirvöldum ríkja í Miðausturlöndum, hvatt Arabsat – Sádi-Arabískt útsendingafyrirtæki – til að leggja niður starfsemi sína. Fyrirtækið sýnir ólöglega útsendingar á íþróttaviðburðum sem þeir eiga ekki höfundarétt á.

Arabsat byrjaði að streyma leikjum og öðru efni ólöglega árið 2017 og sama ár hófust deilur á milli Sádi-Arabíu og Katar.

Alls hefur enska úrvalsdeildin rætt við níu lögfræðistofur í Sádi-Arabíu en engin þeirra vill taka þátt í málaferlum gegn Arabsat.

Litlar sem engar líkur eru á því að enska úrvalsdeildin muni koma í veg fyrir yfirtökuna en hún samþykkti til að mynda sölu Sheffield United í hendur Sádi-Arabísks prins á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×