Viðskipti innlent

Fox-Pitt með nýtt verðmat á Kaupþingi

Kauþing.
Kauþing. Mynd/Stefán

Bandaríska fjármálafyrirtækið Fox-Pitt Kelton gaf í gær út greiningu og nýtt verðmat á Kaupþingi. Bankinn metur Kaupþing eftir tveimur aðferðum. Mat á hverju afkomusviði bankans gefur verðmatsgengið 968 krónur á hlut en að gefnum forsendum um ávöxtunarkröfu, undirliggjandi langtímaarðsemi eigin fjár og framtíðarvöxt er Kaupþing metið á 970 krónur á hlut. Þetta er nokkuð nokkuð undir mati bandaríska bankans Citigroup á Kaupþingi, sem mat bankann fyrir hálfum mánuði á 1000 krónur á hlut.

Greiningadeild Glitnis segir um verðmatið í Morgunkorni sínu í dag að við fyrri aðferðina meðhöndli Fox-Pitt nýfengið fé úr hlutafjárútboði Kaupþings síðastliðið haust sem órekstrartengda eign eða fjármagn sem greiða megi beint út til hluthafa. Þá er nálgunin sú sama og greiningardeild Glitnis hafði í verðmati á Kaupþingi í byrjun desember í fyrra og sé í eðli sínu varfærin nálgun.

Glitnir segir afkomuspá Fox-Pitt fyrir fjórða ársfjórðung 2006 mjög svipaða spá sinni. Greiningardeild Glitnis reiknaði þá með því að Kaupþing myndi skila 11,9 milljarða króna hagnaði á fjórðungnum en Fox-Pitt áætlar að hagnaður bankans muni nema 12,2 milljörðum króna á tímabilinu.

Þá er ennfremur bent á að þrjú erlend fjármálafyrirtæki hafi gefið út verðmatsgreiningar á Kaupþingi í janúar. Citigroup mat bankann á 1.000 krónur á hlut, Fox-Pitt metur hann á 970 krónur á hlut og Morgan Stanley á 937 krónur á hlut. Til samanburðar er verðmat greiningardeildar Glitnis 968 hlut en verðmat greiningardeildar Landsbankans 899 krónur á hlut. Verð á bréfum Kaupþings hafa hækkað um 7 prósent frá áramótum og stendur nú í um 900 krónum á hlut, að sögn greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×