Viðskipti innlent

Kaupþing með nýtt verðmat á Össuri

Kaupþing.
Kaupþing. Mynd/Stefán
Greiningardeild Kaupþings hefur gefið út uppfært verðmat á stoðtækjafyrirtækinu Össuri samhliða birtingu afkomuspár fyrir fjórða ársfjórðung. Deildin spáir því að Össur muni skila þriggja milljóna dala eða 217,6 milljóna króna tapi á fjórða ársfjórðungi með fyrirvörum. Bankinn mælir með því að fjárfestar kaupi bréf í stoðtækjafyrirtækinu.

Greiningardeildin bendir á í verðmati sínu að Össur hafi rétt fyrir jólin keypt franska félagið Gibaud og verði fjórði ársfjórðungur litaður af kostnaði vegna endurskipulagningar félagsins. Sé gert ráð fyrir að samþætting annarra fyrirtækja í samstæðunni hafi einnig tekið sinn toll á fjórðungnum. Séu kaupin til þess fallin að auka virði Össurar. Þau muni hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins til skamms tíma en vakin er athygli á því að nokkur óvissa ríki um skattfærslu í fjórðungnum sem getur haft veruleg áhrif á endanlegan hagnað.

Greiningadeildin gefur verðmatsgengi Össurar 124,1 krónur á hlut sem er hækkun úr 120 krónum í síðasta verðmati auk þess sem deildin hækkar tólf mánaða markgengi í 137 krónur á hlut sem er 7 króna hækkun frá fyrra mati.

„Við breytum nú ráðgjöf okkar og mælum með því að fjárfestar kaupi (Buy) bréf í Össuri í stað fyrri ráðgjafar um að auka við sig í félaginu (Accumulate)," segir í verðmatinu.

Verðmat Kaupþings á Össuri





Fleiri fréttir

Sjá meira


×