Innlent

Ekkert nýtt smit í fyrsta skipti frá upphafi faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Faraldurinn virðist áfram í rénun og greinast nú tiltölulega fá ný smit daglega.
Faraldurinn virðist áfram í rénun og greinast nú tiltölulega fá ný smit daglega. Landspítali/Þorkell

Staðfest smit nýs afbrigðis kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum eru enn 1.789 talsins hér á landi og hefur þeim ekki fjölgað á milli daga, í fyrsta skipti frá því að faraldurinn hófst. Tiltölulega fá ný sýni voru þó greind á milli daga samkvæmt nýuppfærðum tölum landlæknis og almannavarna.

Alls eru nú þrettán á sjúkrahúsi og fimm á gjörgæslu vegna Covid-19. Þá hafa 1.542 nú náð bata. 726 einstaklingar eru í sóttkví og 237 í einangrun. 18.691 hefur lokið sóttkví. Tekin hafa verið 45.286 sýni og hafa því innan við 300 ný sýni bæst við frá því í gær.

Tíu af þeim sem hafa greinst með Covid-19 hafa látist fram að þessu.

Klukkan tvö verður haldinn upplýsingafundur almannavarna og landlæknis þar sem farið verður yfir stöðu mála í sambandi við faraldurinn og farið yfir aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×