Innlent

Stjórnin næði ekki meirihluta

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mest fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 36,2 prósent af þeim sem gáfu upp hvað þeir myndu kjósa sögðust myndu kjósa þann flokk. Samkvæmt því myndi flokkurinn fá 23 þingmenn, einum fleiri en þeir hafa nú. Ef úrslit kosninga færu eins og könnunin myndu stjórnarflokkarnir þó ekki ná að halda meirihluta sínum, því einungis 9,9 prósent styðja Framsóknarflokkinn. Með slíkt fylgi fengi flokkurinn sex þingmenn, sem er helmingurinn af fjölda framsóknarþingmanna nú. Samanlagt fengju stjórnarflokkarnir því 29 þingmenn af 63. Framsóknarflokkurinn réttir þó aðeins hlut sinn frá síðustu könnun, þegar átta prósent sögðust myndu kjósa flokkinn, sem gerir fimm þingmenn. Samfylkingin er samkvæmt könnuninni næst stærsti flokkurinn, eftir að hafa mælst stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í könnunum Fréttablaðsins síðan í nóvember á síðasta ári. 34 prósent sögðust myndu kjósa Samfylkinguna og fengi flokkurinn samkvæmt því 22 þingmenn. Þingmenn Samfylkingarinnar eru 20 nú. Vinstri grænir eru á svipuðu róli og í síðustu könnun Fréttablaðsins, hafa stuðning 14,1 prósent þeirra sem tóku afstöðu, sem gerir níu þingmenn. Frjálslyndir dala nokkuð frá síðustu könnun og segjast 4,7 prósent styðja þann flokk. Hringt var í 800 manns 8. maí, sem skiptust jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú? 53,3 prósent tók afstöðu til spurningarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×