Innlent

Þörf á varanlegri lausn

Hjúkrunarfræðingur sem starfaði á geðdeild Landspítalans telur samfélaginu stafa hætta af sjúku fólki sem útskrifað hefur verið af geðdeild. Lögreglan í Reykjavík segir úrbóta þörf því oft lendi lögreglumenn í hættu í samskiptum við veikt fólk sem þurfi varanlegri lausn á sínum vanda en vist í fangaklefa. Hjúkrunarfræðingurinn sem starfaði á geðdeild Landspítalans segir að sjúklingarnir sem voru mest veikir, þ.e. þeir hættulegu, hafi að hennar mati, ekki fengið þá meðferð sem þeir þarfnist. Starfsfólkið hafi óttast þá á meðan þeir voru á deildinni. Hjúkrunarfræðingurinn hætti störfum á geðdeildinni vegna óánægju með úrræðaleysi kerfisins. Hún segir það einungis tímaspursmál hvenær þessir bráðveiku og hættulegu einstaklingar valdi stórkostlegum skaða. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að lögreglan hafi oft afskipti af einstaklingum sem séu veikir á geði. Yfirleitt sé farið með þá á geðdeild Landspítalans en ekki sé alltaf tekið við þeim. Karl segir að mismunandi skoðanir séu á því innan kerfisins hvað teljist hættulegir einstaklingar. Aðalatriðið sé að finna lausn. Einungis þurfi að horfa til atburða undanfarið til að sjá hve málið er alvarlegt. Þeir sem koma að umönnun geðsjúkra segja að um tuttugu manns sem telja megi hættulegt fái ekki viðeigandi meðferð og gangi því lausir. Karl Steinar segir að lögreglan hafi afskipti af sömu einstaklingum aftur og aftur þannig að út frá sjónarhóli lögreglunnar virðist þurfa ansi mikið til til þess að það sé fundin varanleg lausn þeim vanda sem einstaklingar glíma við. Aðspurður hvort lögreglumenn hafi lent í aðstæðum sem séu beinlínis hættulegar þegar þeir hafi nálgast geðsjúka menn segir Karl Steinar að það hafi þeir gert, ekki sé hægt að leyna því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×