Innlent

Reynt að koma höggi á Björn

geir h. haarde Sagði samstarf sitt við dómsmálaráðherra óaðfinnanlegt.
geir h. haarde Sagði samstarf sitt við dómsmálaráðherra óaðfinnanlegt. MYND/Daníel

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir ásökun Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra Alþýðuflokksins, um að hann hefði verið hleraður alvarlega og beinast óbeint að Sjálfstæðisflokknum, sem var samstarfsflokkur Alþýðuflokksins á þeim tíma. Segir Geir að reynt sé að gera Sjálfstæðisflokkinn og forsvarsmenn hans tortryggilega. Kom þetta fram í máli Geirs á opnum fundi í Valhöll í gærmorgun.

Geir sagði sérstaklega ógeðfellt að svo virðist sem reynt sé að koma höggi á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og að sér læðist sá grunur að það sé í tengslum við prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer um næstu helgi. Björn sækist þar eftir öðru sæti.

Geir áréttaði að hið svokallaða hleranamál skiptist í raun í tvö mál. Annars vegar sé um að ræða hleranir á tímum kalda stríðsins en sérstakur hópur manna vinnur nú að því að finna út hvernig opna megi fyrir aðgang fræðimanna í gögn frá þessu tímabili. Hins vegar haldi Jón Baldvin og Árni Páll Árnason, fyrrverandi starfsmaður á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, því fram að þeir hafi verið hleraðir á fyrri hluta tíunda áratugarins og sé það mál í rannsókn hjá ríkissaksóknara eins og vera bæri.

Geir sagði það vera umhugsunarefni hvers vegna Jón Baldvin, sem var stjórnvald á þessum tíma, hafi ekki látið aðra í ríkisstjórninni vita af hlerununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×