Innlent

Fyrsti hvalurinn kominn að landi í Hvalstöðinni

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra klappar bráðinni sem dregin var á land í morgun.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra klappar bráðinni sem dregin var á land í morgun. Mynd/Sigurjón Ólason

Hvalur níu er nú kominn að bryggju í Hvalstöðinni í Hvalfirði, með sextíu tonna langreyði, sem er fyrsti hvalurinn sem veiddur er í atvinnuskyni, við Ísland, í tuttugu ár.

Nokkur fjöldi manna er í Hvalfirði að fylgjast með, en ekki hefur enn borið á neinum mótmælendum. Hvalveiðarnar mælast þó yfirleitt illa fyrir erlendis, og umhverfisráðherra Ástralíu sagði að með þessu væru Íslendingar að sýna alþjóða samfélaginu fyrirlitningu.

Gert er ráð fyrir að hvalurinn verði tekinn á landi, til aðgerðar, um hádegisbilið.

Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu segir að með veiðum Hvals níu á langreyði séu Íslendingar að sýna alþjóðasamfélaginu fingurinn. Í viðtali við ástralska fjölmiðla sagði Campbell að héðan í frá væri ekki hægt að taka mark á Íslendingum í neinu umhverfismáli.

Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn, IFAW, mótmælir hvalveiðum Íslendinga og segir að með drápinu í gær hafi Íslendingar ekki bara saurgað hafsvæðið við landið heldur orðstír sinn á alþjóðavettvangi. Í fréttatilkynningu segja samtökin að líklega sé ætlunin að selja hvalkjötið til Japans, en það sé ólöglegt að alþjóðasamningum um verslun með afurðir dýra í útrýmingarhættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×