Körfubolti

Daníel: Sáu það allir að við söknuðum Le Day

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel var ánægður með frammistöðu Grindvíkinga í dag.
Daníel var ánægður með frammistöðu Grindvíkinga í dag. vísir/daníel

Daníel Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, sagði að það hefði munað mikið um Bandaríkjamanninn Seth Le Day sem var í banni í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni.

„Okkur vantaði ógn inni í teig,“ sagði Daníel í samtali við Vísi eftir leik. „Við söknuðum Le Day klárlega. Það sjá það allir.“

Daníel hrósaði sínum mönnum fyrir góða frammistöðu gegn ógnarsterkum Stjörnumönnum.

„Ég er ánægður með frammistöðuna. Menn lögðu sig fram og fylgdu því sem lagt var upp með,“ sagði Daníel.

„Þeir eru með mjög hæfileikaríka leikmenn og gott varnarlið. Þetta var erfitt en við fórum í þennan leik til að vinna.“

Daníel sagði að sínir menn hefðu tekið full mörg þriggja skot á kafla í leiknum.

„Við festumst aðeins of mikið fyrir utan þriggja stiga línuna og fórum í skotkeppni við þá. Þeir svöruðu alltaf,“ sagði Daníel.

„Ég get ekki tekið það af mínum mönnum að þeir reyndu en það vantaði jafnvægi í leik okkar.“


Tengdar fréttir

Hlynur: Munaði um breiddina

Fyrirliði Stjörnunnar sagði breiddin hafi skipt sköpum gegn Grindavík í úrslitaleik Geysisbikars karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×