Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna, sagði af sér embætti á félagsfundi í dag. Ólga hefur verið innan sambandsins undanfarin misseri.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá LSS sem send var á fjölmiðla skömmu fyrir miðnætti. Þar segir að eftir aðalfund sambandsins sem haldinn var í apríl hafi umræða um ýmis ágreiningsmál innan félagsins orðið hávær.
„Helstu ástæður deilnanna eru m.a. ólík sjónarmið um vægi atkvæða félagsmanna eftir starfshlutfalli og um fjölda þingfulltrúa. Gagnrýni á stjórn LSS hefur einnig komið fram og hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd þingsins í apríl,“ segir í tilkynningunni
Á þinginu var Stefán sjálfkörinn formaður eftir að fulltrúi slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu dró framboð sitt til baka. Stefán var fyrst kjörinn formaður árið 2016.
Ályktað var á fundi félagsins í kvöld að kanna möguleikan á því að halda aukaaðalþing sem í haust en þangað til mun Magnús Smári Smárason, varaformaður félagsins, gegna embætti formanns.
