Á vefsíðu Fílalags kemur fram að „í fíluninni felst að greina menningarleg fyrirbæri sem eru kynnt í laginu, tískustrauma í hljómi og tíðaranda í framsetningu. Farið erum víðan völl og fjallar þátturinn um poppmenningu í stærra samhengi.“
Í þættinum er hið flókna samband Íslands og Danmerkur í aðalhlutverki. Óhætt er að segja að þeir félagar fari ekki fögrum orðum um Danaveldi og endar sjálfur þátturinn á þeim fleygu orðum: „Fuck You Denmark.“
Þáttarstjórnendur gagnrýna nýlendustefnu Dana harðlega. Þeir félagar telja að Danir hafi alls ekki uppfyllt siðferðislegar skyldur sínar gegn Íslendingum síðan Ísland varð sjálfstætt árið 1944. „Allar þjóðir sem hafa kúgað aðra, sagt þeim að tala tungumálið sitt, gert eitthvað reform og sagst vera að mennta þau, allar aðrar þjóðir eru í keng útaf þessu, nema Danir, það er afþví að liðið sem það kúgaði reis upp friðsællega, það dó enginn, og það er komið á fokking HM“ segir Bergur Ebbi.
Bergur Ebbi rifjaði einnig upp vináttulandsleik Íslands gegn Danmörku árið 1967, þar sem Danmörk sigraði 14-2. „Hvaða land með sjálfsvirðingu býður fyrrverandi nýlendunni sinni til að spila landsleik nokkrum árum eftir að hún verður sjálfstæð, býður henni á flotta 45.000 manna leikvanginn sinni, smekkfyllir hann og vinnur 14-2? Hvaða þjóð með sjálfsvirðingu montar sig af því? Hvaða villidýraskapur er það að geta ekki hætt eftir svona 7 mörk? Hvað er að þessari þjóð?“ spyr Bergur Ebbi, æstur.
Hér má sjá myndband af stórtapi íslensku þjóðarinnar.
Hér er hægt að hlusta á þáttinn.