Lífið

Taka við af Páli Óskari

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hljómsveitin Stuðlabandið mun loka Þjóðhátíð í Eyjum sem fer fram um verslunarmannahelgina líkt og flestir ættu að vita.

Söngvarinn góðkunni Páll Óskar Hjálmtýsson hefur lokað Þjóðhátíð síðastliðin tvö ár en nú er breytt til og Stuðlabandið slær lokatóninn á hátíðarhöldunum. Trommuleikari hljómsveitarinnar, Marinó Geir Lilliendahl segir þá félaga spennta fyrir hátíðinni og lítast vel á að koma fram á Þjóðhátíð.

Þetta er í fyrsta sinn sem Stuðlabandið spilar á Þjóðhátíð en Marinó segist þó hafa sótt dalinn heim nokkrum sinnum. Bandið stígur á svið á eftir Sverri Bergmann og Albatross. Hljómsveitin kemur einnig fram á barnaballi fyrr um daginn svo yngri hátíðargestir ættu að geta sveiflað sér örlítið í takt við tónlistina líka.

Stuðlabandið er skipað þeim Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni sem spilar á gítar og syngur, Sigurgeiri Skafta Flosasyni á bassa, Sigþóri Árnasyni á hljómborð, Óskari Kúld Péturssyni á gítar, Stefáni Ármanni Þórðarsyni á kassagítar og Bjarna Rúnarssyni á slagverk auk Marinó sem sér líkt og áður sagði um trommuleikinn.

Marinó lofar góðri stemningu og lofar gestum alvöru íslensku sveitaballi en bandið er þekkt fyrir mikla spilagleði og líflega sviðsframkomu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×