Erlent

Heimagerður ISIS-fáni fannst í herbergi piltsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Heimagerður ISIS-fáni fannst í herbergi sautján ára piltsins sem réðist með hnífi og exi á farþega lestar í Þýskalandi í gærkvöldi. Frá þessu er greint á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að drengurinn hafi sært fjórar manneskjur frá Hong Kong, þar á meðal tvær lífshættulega, í árásinni í Wuerzburg. Lögregla skaut hann til bana eftir að hann hafði lagt á flótta.

Hann er sagður hafa kallað Allahu akbar, eða guð er meiri, að sögn vitna. BBC hefur eftir Amaq-fréttastofunni, sem er með tengsl við ISIS, að pilturinn hafi verið ISIS-liði og árásin hafi verið svar við kalli um að ráðast á þær þjóðir sem eru í bandalagi gegn hinu svokallaða íslamska ríki.

Haft er eftir Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, að ISIS-fáni hefði fundist í herbergi piltsins á heimili fósturforeldra hans í bænum Ochsenfurt.

Herrmann lagði áherslu á að enn væri of snemmt að ætla piltinum að vera ISIS-liði.

Pilturinn var frá Afganistan en hann hafði sótt um hæli eftir að hafa komið einn síns liðs til Þýskalands. Hann hafði búið hjá fósturfjölskyldu sinni eftir að hafa verið í flóttamannamiðstöð í bænum.  


Tengdar fréttir

Gekk berserksgang með öxi

Minnst fjórir eru sagðir særðir í Þýskalandi og þar af þrír alvarlega eftir árás 17 ára drengs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×