Lífið

„Faðir vor, þú, sem býrð á Króknum“

Atli Ísleifsson skrifar
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Benedikt Jóhannesson útgefandi.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Benedikt Jóhannesson útgefandi. Vísir//Vilhelm/GVA
Benedikt Jóhannesson, útgefandi og einn af forsvarsmönnum Viðreisnar, hefur birt nýja útgáfu af Faðir vorinu þar sem hann hnýtir í orð Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra þar sem veltir því upp hvort ekki sé hægt að nota „mildara orðalag“ við þýðingu Evróputilskipana.

Á heimasíðu Benedikts segir hann í gamansömum tón að úr þýðingarsmiðju umhverfisráðherra hafi borist eftirfarandi „mildari“ útgáfa af útlendri reglugerð sem lengi hafi pirrað framsóknarmenn:

Faðir vor, þú, sem býrð á Króknum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji

svo á Íslandi sem annars staðar á Skagfirska efnahagssvæðinu.

Gef oss í dag vort lambakjöt.

Og leiðrétt vorar skuldir,

svo sem vér, og fyrirgefum

skuldir útrásarvíkinga úr Framsóknarflokknum.

Eigi leið þú oss í Evrópusambandið,

heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen.

Sigrún sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að „reglugerðafarganið“ sem berist í gegnum EES hafi lengi verið eitur í beinum framsóknarmanna og annarra. Hafi hún því velt því upp hvort ekki væri hægt að nota mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana.

Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, segir það bæði vera óraunsætt og barnalegt af umhverfisráðherra að halda því fram að mögulegt sé að milda orðalag við þýðingu Evróputilskipana svo þær henti Íslendingum betur.

Stjórn Bandalags þýðenda og túlka hefur sömuleiðis furðað sig  og segja að með þeim sé „vegið að heiðri og fagmennsku þeirra þýðenda sem starfa fyrir Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins, jafnt fastráðinna starfsmanna sem verktaka.“


Tengdar fréttir

Vill milda tilskipanir EES

Umhverfisráðherra vill mildara orðalag í þýðingum á Evróputilskipunum. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar vill endurmeta EES-samstarfið og skoða Schengen-aðild. Vaxandi pirrings gætir hjá Framsóknarflokki.

Orð Sigrúnar vekja hörð viðbrögð

Stjórnarandstaðan segir fráleitt að krefjast sérmeðferðar á þýðingum EES-tilskipana. Tilskipanir gefa svigrúm til útfærslu, segir formaður utanríkismálanefndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×