Gagnrýnir fjárlagagerð

Fjárlög voru sett á rekstrargrunn frá og með 1998 í því skyni að hægt væri að bera saman fjárlög og ríkisreikning. Í frumvarpi um fjárreiður ríkisins sem lagt var fram 1996 sagði: "Breytingin hefur það í för með sér að áætlanir fjárlaga og niðurstöður ríkisreiknings verða að fullu samanburðarhæfar, en ríkisreikningur hefur til margra ára sýnt bæði rekstrarniðurstöður og greiðsluhreyfingar." Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á þetta atriði í umræðum um fjárlagafrumvarpið í gær. Sagði hann að fjármálaráðherra gæti ekki varið mismun ríkisreiknings og fjárlaga með gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga enda væri gert ráð fyrir þeim í fjárlögunum. "Ef fjármálaráðherra sér fram á stóraukna gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga á það að að vera í frumvarpinu sjálfu. Þetta staðfestir málflutning okkar um að fjárlagafrumvarpið sé ekki pappírsins virði".