Innlent

Par grunað um líkams­á­rás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maður var fluttur á Bráðadeild eftir að hafa dottið af hestbaki en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum. 
Maður var fluttur á Bráðadeild eftir að hafa dottið af hestbaki en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum.  Vísir/Vilhelm

Par var handtekið í gærkvöldi vegna gruns um að það hafi ráðist á konu í Breiðholti. Parið var vistað í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Áverkar þolandans eru talin minniháttar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar klukkan ellefu í gærkvöldi. Tjónvaldur hafði gengið af vettvangi en var hann handtekinn þar nærri vegna gruns um akstur undir áhrifum og vörslu fíkniefna og var hann í kjölfarið vistaður í fangageymslu lögreglu vegna málsins.

Þá var maður handtekinn vegna gruns um líkamsárás en hann hafði ráðist á mann við bar í Laugardalnum. Árásarþolinn var kýldur í andlitið og er talið líklegt að tönn hans hafi brotnað.

Nokkur tilfelli voru um að ökumenn væru stoppaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en alls var um fimm slík tilfelli að ræða. Þá var tilkynnt um slys í Mosfellsbæ á áttunda tímanum í gær þegar maður datt af hesti. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum á hestbaki.

Þá var bifreið stöðvuð á Hringbraut í Vesturbænum laust upp úr miðnætti en ökumaður er grunaður um ítrekaðan akstur án gildra réttinda en hann er aðeins sautján ára gamall. Málið var tilkynnt foreldri og Barnavernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×