Menning

Aðstoðar Einar Bárðar

Einar Bárðarson tónleikahaldari hefur ráðið til sín ungan Ísfirðing, Gunnar Atla Gunnarsson, til að aðstoða við skipulagningu á tónleikum hljómsveitarinnar Deep Purple sem haldnir verða í Laugardalshöllinni 23. og 24. júní. Samkvæmt Bæjarins besta á Ísafirði var Gunnar að vinna fyrir Einar við miðasölu fyrir Deep Purple-tónleikana þegar Einar bauð honum starf aðstoðarmanns. Gunnar Atli er kominn til Reykjavíkur þar sem hann vinnur hörðum höndum fyrir tónleikafyrirtækið Concert fram til 25. júní. Það þótti fréttnæmt í upphafi ársins þegar Gunnar Atli fékk hljómsveitina Mínus til að spila fyrir Vestfirðinga þann 25. febrúar. Mínustónleikarnir voru þó ekki fyrstu tónleikar Gunnars. "Ég skipulagði Írafár tónleika 22. febrúar í fyrra fyrir Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar en ég spila með KFÍ. Svo hélt ég einnig góðgerðartónleika fyrir krabbameinsfélagið í fyrra." Gunnar er einnig umboðsmaður ísfirsku hljómsveitarinnar Apollo sem hefur verið að spila á skólaböllum en hann segist ekkert spila sjálfur á hljóðfæri, hann er bara í skipulagningu. "Það er bara gaman að skipuleggja og hafa mikið að gera," segir þessi ungi aðstoðarmaður tónlistarmógúlsins Einars Bárðarsonar. Hann ætlar í Menntaskólann á Ísafirði að loknum grunnskóla og stefnir síðan á fjölmiðlafræði í Háskólanum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.