Handbolti

Þreföld Þjóðhátíð í Vestmannaeyjahöfn | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmenn ÍBV voru magnaðir í úrslitarimmunni.
Stuðningsmenn ÍBV voru magnaðir í úrslitarimmunni. Vísir/Stefán
„Ég var með gæsahúð allan tímann,“ segir Jóhann Norðfjörð, stuðningsmaður ÍBV, um mótttökurnar sem Íslandsmeistaralið ÍBV fékk í Vestmannaeyjahöfn í gærkvöldi.

Jóhann var einn af hundruðum stuðningsmanna ÍBV sem fylgdi liðinu upp á land og horfði á það vinna fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í karlaflokki er það lagði Hauka í mögnuðum oddaleik í gærkvöldi.

Eftir leik fóru sjö rútur fullar af stuðningsmönnum aftur til Landeyjahafnar auk leikmannarútunnar og annarra sem fóru á einkabílum. Öllum var troðið í Herjólf, sama hvort þeir áttu miða heim eða ekki.

„Þegar ég pantaði mér miða upp á land í fyrradag fékk ég ekki miða til baka en ég fékk samt að fara með eins og allir sem voru þarna. Það átti bara að koma öllum heim. Heimferðin byrjaði með smá öldugangi en það var öllum sama. Fólk stóð bara uppi á dekki og söng,“ segir Jóhann.

Herjólfur sigldi ekki af stað fyrr en rúmlega eitt þannig Íslandsmeistararnir og stuðningsmenn þeirra voru ekki mættir heim fyrr en undir tvö í nótt. Það skipti Eyjamenn engu - það var nánast öll eyjan mætt niður á höfn til að taka á móti sínum mönnum.

„Það byrjaði flugeldasýning þegar við vorum að koma inn í höfnina og svo voru endalaust af blysum. Þarna voru fleiri hundrað manns að syngja og skemmta sér. Þetta var þreföld þjóðhátíð fyrir mér,“ segir Jóhann.

Flugeldasýningin hafin.Mynd/Stefán Geir Gunnarsson
Mynd/Stefán Geir Gunnarsson

Tengdar fréttir

Stuðningsfólk Hauka og ÍBV fær hrós frá lögreglunni

Það var troðfullt í Schenker-höllinni á Ásvöllum í gær þegar Eyjamenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla eftir 29-28 sigur á Haukum í oddaleik í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×