Íslenski boltinn

Tryggvi Guðmunds: KR-ingar verða að hætta að væla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson. Vísir/Anton
Tryggvi Guðmundsson, markahæsti leikmaður efstu deildar karla í fótbolta frá upphafi, spáir í fjórðu umferð Pepsi-deild karla á vefsíðunni fótbolti.net í dag og þar skýtur hann aðeins á Íslandsmeistara KR.

KR-liðið hefur tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum í sumar og strax komið sex stigum á eftir toppliði Keflavíkur og fjórum stigum á eftir erkifjendum sínum í FH.

Tryggvi er með sína skýringu á slæmu gengi lærisveina Rúnars Kristinssonar í upphafi mótsins en liðinu var spáð Íslandsmeistaratitlinum í árlegri spá fyrirliða, forráðamanna og þjálfara.

„KR-ingar hafa vælt yfir sól, vælt yfir því að spila heimaleikina ekki heima heldur á gervigrasi (sem ég reyndar skil) og vælt yfir dómgæslu sem var einfaldlega góð. Kominn tími á að hætta að væla og spila fótbolta. Verða einfaldlega að vinna þennan leik því annars byrja menn að pirrast verulega í vesturbænum," segir Tryggvi í pistli sínum en það má finna hann allan hér.

KR-liðið mætir toppliði Keflavíkur á Nettóvellinum í Keflavík á sunnudagskvöldið og þar getur hugsanlegt spútniklið sumarsins náð níu stiga forskoti á meistarana úr Vesturbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×